Áhyggjuefni að íbúar hafi ekki heitt og kalt vatn

Kaldavatnslaust er í Ásbrúarhverfinu.
Kaldavatnslaust er í Ásbrúarhverfinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, staðgengill bæjarstjóra í Reykjanesbæ og formaður bæjarráðs, segist ekki heyra annað frá þeim íbúum sem rætt hafi verið við að þeir hafi vaknað í nokkuð vel heitum húsum í morgun. Kaldavatnslaust er í nokkrum hverfum að hennar sögn.

Heitavatnslaust hefur verið á öllum Suðurnesjum frá því í gærkvöld í kjölfar þess að Njarðvíkurlögnin fór undir hraun um hádegisbilið í gær.

„Við heyrum ekki annað en að vinnan við að lagfæra lögnina í nótt hafi gengið mjög vel. Við vonum að hægt verði að hleypa heitu vatni inn á lögnina í dag. Þeir segja að ef allt gengur að óskum við vinnuna í dag þá gæti verið kominn einhver hiti inn á kerfin fyrir nóttina,“ segir Halldóra Fríða við mbl.is.

Bilun í stofnlögn kalda vatns

Halldóra telur að fólk hafi farið eftir tilmælum almannavarna um að nota einungis einn rafmagnsofn, fara sparlega með raftæki og loka gluggum. Hún segir að ekkert hafi borið á neinum rafmagnstruflunum en komið hafi upp bilun í stofnlögn kalda vatns sem ekki megi þó rekja til eldgossins.

„Þessi bilun varð til þess að frá miðnætti var lítill þrýstingur og sumstaðar kaldavatnslaust í Ásbrúarhverfinu, Háaleitishlaði og við flugvallarsvæðið. Það er auðvitað áhyggjuefni þegar íbúar hafa hvorki heitt né kalt vatn. Við erum að fylgjast með því og vonum að vinnu við viðgerð ljúki um tíuleytið,“ segir Halldóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert