Heitavatnsleysið hafi lítil áhrif á farþega

Gosmökkurinn frá elgosinu sást vel frá Keflavíkurflugvelli á fimmtudagsmorgun.
Gosmökkurinn frá elgosinu sást vel frá Keflavíkurflugvelli á fimmtudagsmorgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Upplýsingafulltrúi Isavia segir að farþegar Keflavíkurflugvallar finni lítið fyrir áhrifum heitavatnsleysisins sem hrjáir Suðurnes að nýju eftir að hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræðinni fór í sund­ur.

Njarðvíkuræð, sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni, laskaðist þegar hraun úr eldgosinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógsfells skreið yfir hana. Hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræð fór svo í sundur í nótt.

„Við höldum áfram þeim aðgerðum sem voru í gangi áður en hleypt var á heitavatnið í gærkvöldi,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is. Hann vill meina að vel hafi gengið að tryggja það að farþegar finni sem minnst fyrir heitavatnsleysinu.

Hafi líklega ekki áhrif á flug

„Við erum með hitablásara. Við höfum slökkt á loftræstikerfi og það er ýmislegt annað sem við höfum gert,“ bætir Guðjón við.

Aðspurður segir hann það ekki fyrirsjáanlegt að skemmdirnar á lögninni hafi einhver áhrif á flug til eða frá Keflavík.

Þá þurfi heldur ekki að hafa áhyggjur af því ef rafmangið slær út, þar sem varaaflstöðvar eru á flugvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert