„Munum þurfa að loka aftur“

Helga Árnadóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu, rekstr­ar og þjón­ustu Bláa lóns­ins.
Helga Árnadóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu, rekstr­ar og þjón­ustu Bláa lóns­ins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Árnadóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu, rekstr­ar og þjón­ustu í Bláa lóninu, býst við því að rýma þurfi lónið aftur. Segir hún að opnunin í dag hafi gengið mjög vel og markmiðið sé að geta opnað lónið á sama hraða og rýming þess krefst.

Telur gesti ekki uggandi

Helga segir að búast megi við um 300-500 gestum í lóninu á hverjum tímapunkti í dag. Staðan líti ágætlega út en að aðeins minna sé um bókanir en búist var við á þessum tíma, sem sé ákveðinn háannatími vetrarleyfa í Evrópu. 

„Við höfum verið lánsöm. Fólk hefur verið að geyma bókanirnar sínar og við finnum því fyrir því að gestir okkar eru spenntir að búið sé að opna frekar en hitt.“ 

Barist fyrir að tryggja reksturinn

Um 250-300 starfsmenn mættu til starfa í lóninu í dag. Helga segir starfsmenn fyrirtækisins átta sig á því hversu mikilvægt það er að hægt sé að opna og halda starfsemi áfram. 

Bláa lónið.
Bláa lónið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum auðvitað frá upphafi verið að berjast fyrir því að tryggja reksturinn eins og hægt er því við ætlum að halda ráðningarsambandi við þá 800 manns sem starfa hjá félaginu í dag. Það er auðvitað það sem skiptir mestu máli,“ segir hún og bætir við að hún upplifi ekki annað en að starfsmenn séu á sama máli. 

„Ætlum að lifa með náttúrunni“

Um 150 manns voru í bygg­ing­um Bláa lóns­ins í Svartsengi þegar eldgos hófst á svæðinu í byrjun mánaðar. Rúm­ar 40 mín­út­ur tók að rýma bygg­ing­arn­ar. 

Spurð hvort rýmingaráætlun verði endurskoðuð segir Helga að búið sé að rýma í einhver skipti og ýmsar æfingar hafi farið fram. Alltaf sé eitthvað hægt að læra en ekkert stórvægilegt hafi komið upp við rýmingu. 

„Væntanlega munum við þurfa að rýma aftur. Við ætlum okkur bara að gera það fumlaust eins og hingað til. Á sama tíma er auðvitað gríðarlega mikilvægt að geta opnað hratt og örugglega. Þannig ætlum við að lifa með náttúrunni næstu misserin. Við þurfum bæði að geta opnað hratt og lokað hratt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert