Rasísk ummæli kennara endurspegli ekki skólasamfélagið

Jóna Katrín Hilmarsdóttir skólameistari.
Jóna Katrín Hilmarsdóttir skólameistari. mbl.is/Sigurður Bogi

Jóna Katrín Hilmarsdóttir, skólameistari við Menntaskólann að Laugarvatni, segir rasíska orðræðu Helga Helgasonar, kennara við skólann, um keppanda í Söngv­akeppni sjón­varps­ins ekki endurspegla skólasamfélagið.

„Mín upplifun er að þetta er náttúrulega samstarfsmaður til margra ára, þetta er þungt og erfitt og hefur mikil áhrif á hans samstarfsfólk og ekki síst nemendur,“ segir Jóna Katrín í samtali við mbl.is. 

Helgi birti á laugardagskvöldið færslu á Facebook-hópnum Íslenska Þjóðfylkingin og fór þar ófögrum orðum um palestínska keppandann Bashar Murad. 

„Ætla þeir á Rúv að láta grenj­andi og illa skeind­ann Pal­ist­ínu­araba vinna? Þegar stjórn­end­ur keppn­inn­ar eru farn­ir að beita sér í þágu eins "kepp­anda" hljóta viðvör­una­bjöll­ur að hringja?“ segir meðal annars í færslu hans.

Var ekki sagt upp

Jóna Katrín segir að í kjölfar ummælanna hafi pósthólfið fyllst með skilaboðum frá nemendum, foreldrum og víða úr samfélaginu og samtal við hann því verið brýnt.

Jóna Katrín ítrekar þó að Helga hafi ekki verið sagt upp, enda sé slíkt snúið, heldur hafi skólastjórnendur komist að samkomulagi við Helga, sem hafi fallist á að láta af störfum í kjölfar ummælanna. 

„En okkar sýn í þessu er að við sem skólasamfélag stöndum þá upp og segjum hver við erum. Það er ekki þetta og endurspeglast ekki í þeirri orðræðu sem var viðhöfð,“ segir Jóna Katrín og kveðst hafa talað afdráttarlaust um málið á fundi við nemendur og starfsfólk í morgun.

Menntaskólinn að Laugarvatni.
Menntaskólinn að Laugarvatni. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Nemendur með puttann á púlsinum

Spurð hvort skólastjórnendur hafi orðið vör við þau viðhorf eða þá orðræðu sem Helgi hafi opinberað í Facebook-hópinum Íslenska þjóðfylkingin, segir Jóna Katrín þau viðhorf eflaust ekki hafa verið þeim ljós enda fylgist þau ekki með í slíkum hópum sjálf.

„Ég held samt að nemendur séu duglegri að spotta og fylgjast með. Þannig þau virðast hafa verið með puttann á púlsinum þarna,“ segir Jóna Katrín. 

„Það sem mér sýnist á því sem ég er að skoða þarna núna aftur í tímann er að eins og í samfélaginu öllu og á samfélagsmiðlum sérstaklega, er að færast snarlega töluverð harka í orðræðu,“ segir Jóna.

„Ég er persónulega mjög uggandi yfir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert