Dularfull flugvél kyrrsett á Egilsstöðum

Samgöngustofa hefur kyrrsett flugvél af gerðinni Cessna Citation.
Samgöngustofa hefur kyrrsett flugvél af gerðinni Cessna Citation. Samsett mynd

Samgöngustofa hefur kyrrsett dularfulla flugvél sem staðsett er á Egilsstöðum og dæmt hana ólofthæfa. Málið þykir óvenjulegt þar sem eignarhald hennar liggur ekki fyrir en í ljós hefur komið við eftirgrennslan að hún hafði vetursetu á Höfn í Hornafirði. Þaðan var henni flogið heimildarlaust til Egilsstaða þar sem dekk sprakk í lendingu. 

Um er að ræða einkaflugvél af gerðinni Cessna Citation og vinna flugmálayfirvöld að því að kanna eignarhald vélarinnar í samstarfi við flugmálayfirvöld í Portúgal þar sem vélin er skráð.

Að sögn Þórhildar Elínar Elínardóttur, upplýsingafulltrúa Samgöngustofu, hóf stofnunin að veita vélinni athygli eftir að vélin fór á hreyfingu í átt til Egilsstaða frá Hornafirði þar sem hún hafði dvalið um veturinn. Þangað hafði henni verið flogið heimildarlaust að sögn Þórhildar en að sögn flugmanns stóð til að fara með vélina til Bretlands.

Eftirlitsmenn strax á staðinn 

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að vélin hafði upphaflega lent á Egilsstöðum í ágúst síðastliðnum. Þaðan var henni flogið til Hafnar í Hornafirði þar sem hún hefur verið í vetur.

Vélin hafði vetursetu á Höfn í Hornafirði.
Vélin hafði vetursetu á Höfn í Hornafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Við lendingu á Egilsstöðum í miðvikudag sprakk dekk. Í framhaldinu voru eftirlitsmenn frá Samgöngustofu sendir á staðinn og var hún metin ólofthæf í framhaldinu.

Vita ekki hvaðan hún kom 

„Við skoðun kom í ljós að hún var ekki með lofthæfi. Við erum ekki með upplýsingar um það nákvæmlega hvaðan hún kom til Íslands en vitum að hún kom frá Evrópu,“ segir Þórhildur.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglustjórans á Austurlandi, segir að eignarhald flugvélarinnar sé meðal þess sem er í skoðun. 

„Vélin er kyrrsett af hálfu Samgöngustofu á meðan verið er að kanna leyfi vélarinnar til flugs, það er hvort vélinni hafi verið flogið án þess að leyfi hafi verið til staðar,“ segir Kristján Ólafur. 

Austurfrétt hefur einnig fjallað um málið.  

Uppfært kl 12.28 

Upphaflega var sagt í fréttinni að ósk hafi borist um að að fljúga vélinni til Hafnarfjarðar. Það reyndist hins vegar misskilningur. Hið rétta er að athygli Samgöngustofu vaknaði þegar í ljós kom að verið var að færa vél sem hafði staðið á Hornafirði utandyra í allan vetur.  

Ennfremur hefur Samgöngustofa nú komist að því hver er eigandi vélarinnar. Hún er skráð í Portúgal en nýlega voru gerð eigendaskipti á henni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert