Sláturfélag Suðurlands (SS) auglýsir nú eftir slátrurum til starfa á komandi haustmánuðum. Einar Hjálmarsson, stöðvarstjóri SS á Selfossi, segir í samtali við Morgunblaðið að í heild verði ráðnir til starfa 110 til 120 manns á komandi sláturtíð. Er þetta álíka fjöldi og undanfarin ár, en sláturhúsin treysta mjög á erlent vinnuafl. Margir þessara erlendu starfsmanna koma endurtekið til starfa.
„Áður voru þessi störf mönnuð af fólki til sveita en það hefur breyst. Við auglýsum þetta hér heima til þess að gefa Íslendingum tækifæri til að sækja um, en svo virðist sem þeir séu uppteknir í annarri vinnu,“ segir Einar.
Fyrir covid-tímann komu flestir þessara erlendu starfsmanna frá Nýja-Sjálandi en það breyttist eftir að landinu var lokað í heimsfaraldrinum. Nú eru þessi störf að mestu unnin af Pólverjum sem hingað koma tímabundið til starfa. Einar segir þennan hóp vel þjálfaðan og að hann snúi til starfa ár eftir ár.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.