Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun sína vegna kaupa Landsprents ehf. á prentvél o.fl. úr þrotabúi Torgs ehf. Samkeppniseftirlitið tók málið til skoðunar í fyrrahaust en tilkynnti fyrrgreindum aðilum í desember sl. að rannsókn væri lokið og að eftirlitið mundi ekki hafast frekar að. Ákvörðun yrði birt síðar, sem nú hefur verið gert.
Í ákvörðuninni segir að það sé „niðurstaða málsins að skilyrði um fyrirtæki á fallanda fæti væru uppfyllt, en í því felst að sú breyting sem samruninn felur í sér væri hvort sem er óhjákvæmileg, þar sem viðkomandi starfsemi er allt að einu að hverfa af markaðnum vegna fjárhagserfiðleika.“
Torg ehf. var útgefandi Fréttablaðsins sem hætti útgáfu fyrir rúmu ári. Í ákvörðuninni kemur fram að prentvél þrotabús Torgs hafi síðustu árin fyrir gjaldþrot aðeins prentað Fréttablaðið. Þá segir í ákvörðuninni að engin raunhæf tilboð önnur en frá Landsprenti hafi borist þrotabúinu þrátt fyrir að búnaðurinn hafi verið auglýstur og rætt hafi verið við ýmsa aðila innanlands og utan. Enginn hafi gefið sig fram og lýst vilja til að reka prentvélina áfram.
Ákvörðunarorð Samkeppniseftirlitsins í málinu eru svohljóðandi: „Kaup Landsprent ehf. á prentvél o.fl. úr þrotabúi Torgs ehf. felur í sér samruna í skilningi samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til þess að hafast frekar að í máli þessu.“
Landsprent ehf. er systurfélag Árvakurs hf. sem gefur út Morgunblaðið og mbl.is.