„Yndislegt að standa loksins á toppnum“

Höskuldur Tryggvason á toppnum á Everest.
Höskuldur Tryggvason á toppnum á Everest. Ljósmynd/Aðsend

Flestir sem vilja klífa hæstu fjöll heims láta sér það nægja að klífa upp á Everest en Höskuldur Tryggvason fór einu skrefi lengra og dreif sig líka upp á næsta fjall, Lhotse.

Höskuldur, eða Höddi eins og hann er kallaður, er nýkominn heim eftir ferðalagið sem hann fór með ferðafélögum sínum. Þetta er fimmta ferðin hans til Nepal og eru Everest og Lhotse sjötta og sjöunda Himalajafjallið sem hann klífur.

Blaðamaður mbl.is hafði samband við Hödda og fékk að heyra ferðasöguna.

Önnur tilraun á Everest

Þetta er önnur tilraun Hödda til að klífa Everest en árið 2021 var hann kominn í grunnbúðir þegar hann veiktist alvarlega og þurfti að hætta við förina.

„Það kom í ljós að ég var með Covid-19 og er það óheppilegt að vera með öndunarfærasjúkdóm í meira en 5.300 metra hæð þar sem tiltölulega lítið er um súrefni.“

Seinna meir frétti Höddi af því að verið hefði covid-faraldur í grunnbúðunum og mörg teymi þurft að snúa við sökum veikinda.

Í millitíðinni fór Höddi aftur til Nepal og kleif tvö önnur 8.000 metra há fjöll, Manaslu og Dhaulagiri. Alltaf blundaði þó í honum að klára að klífa Everest.

„Það var ágætis undirbúningur til þess að snúa aftur og klífa fjallið við réttar aðstæður,“ segir Höddi.

Grunnbúðir Everest.
Grunnbúðir Everest. Ljósmynd/Aðsend

Veðurteppt í þriðju búðum

Ferðin frá grunnbúðum upp í fjórðu búðir tók fimm daga, en sökum veðurs þurfti hópurinn að gista í tvær nætur í þriðju búðum. 

Hvað eruð þið að gera á meðan þið bíðið í slæmu veðri?

„Bara mest lítið. Maður fær lítinn svefn og er oft þjakaður af þreytu með takmarkaða matarlyst og ekki óalgengt að þjást af ógleði og uppköstum. Það átti við í mínu tilfelli. Líkaminn er á fullu að bæta upp fyrir þessa hæð. Púlsinn er almennt hærri en vanalega og líkaminn að brenna sjálfum sér, ganga á vöðva og líkamsmassa. Fyrir utan þessa vanlíðan er maður bara að spjalla við góða félaga og njóta útsýnisins.“

Fjórðu búðir Everest sem liggja á hrygg á milli Everest …
Fjórðu búðir Everest sem liggja á hrygg á milli Everest og Lhotse. Ljósmynd/Aðsend

Toppadagur, 21. maí

Þann 21. maí kom loksins veðurgluggi fyrir toppinn. Mestan hluta árs gengur mjög sterkur háloftavindur um topp Everest. Í maí koma hins vegar fáeinir stuttir veðurgluggar þar sem vindur er bærilegur. Á þeim dögum getur því verið margt um manninn á leið á toppinn.

„Við fengum þarna alveg yndislegt veður en því miður þýddi það að það var alveg gríðarlega margt um manninn á ferðinni upp á toppinn.“

Í yndisveðri var örtröð upp á toppinn á Everest.
Í yndisveðri var örtröð upp á toppinn á Everest. Ljósmynd/Aðsend

 Var ferðin hægfara?

„Já, þetta var hægfara og bætti við nokkrum klukkutímum við toppadag sem er hvort eð er alltaf langur, þannig að þetta reyndi á. En þetta gekk upp og við toppuðum í góðu veðri og yndislegt að standa loksins á toppnum.“

Hvernig var tilfinningin á toppnum?

„Það var bara algjör draumur, þetta er gríðarleg náttúrufegurð. Það er vanalega þannig að maður leggur í hann í myrkri og síðan upplifir maður sólarupprásina á tindinum og það er sterk upplifun að sjá dýrðina í kringum sig þegar loks er komið upp.“

Hvergi er betra útsýni en á hæsta fjalli í heimi.
Hvergi er betra útsýni en á hæsta fjalli í heimi. Ljósmynd/Aðsend

Harmur skyggði á gleðina

Leiðin niður hjá ferðahópnum gekk blessunarlega stórslysalaust. En fréttir af harmi á fjallinu skyggðu fljótt á gleðina.

„Það skyggði á gleðina að frétta af sorglegum dauðsföllum rétt að baki mér. Stuttu eftir að ég þræddi þröngan og hættulegan „summit ridge,“ af toppi Everest að lægri suðurtindi fjallsins, hrapaði breskur klifrari með Sjerpa sínum eftir að snjóhengja á hryggnum gaf sig skyndilega. Þar með hafa átta manns alls látið lífið þetta árið á Everest, sem er þó minna en í fyrra, þegar 18 manns létu lífið,“ segir Höddi.

Lagði svo á næsta fjall

Í búðum fjögur hvíldi Höskuldur sig stutt og lagði svo af stað næsta kvöld, með einum ferðafélaga og Sjerpum, upp á fjallið Lhotse, nærri Everest sem er 8.516 metra hátt og liggur á sama hrygg. Restin af hópnum lagði ekki í þá vegferð og fór niður í aðrar búðir.

Fjöllin tvö, Everest og Lhotse, en á milli eru fjórðu …
Fjöllin tvö, Everest og Lhotse, en á milli eru fjórðu búðir. Ljósmynd/Aðsend

 Hver var munurinn á toppnum á Everest og Lhotse?

Everest er auðvitað hæsta fjall jarðar, mjög tilkomumikið fjall sem maður stendur auðmjúkur frammi fyrir. En eftir að hafa lent í töluverðu margmenni á Everest var fallegt að fá Lhotse, sem er mun sjaldnar klifið, næstum því út af fyrir okkur. En það er alltaf stórkostleg upplifun að klifra eitt af þessum stóru og fallegu Himalajafjöllum.“ 

Höddi ásamt ferðafélaga og Sjerpum á toppnum á Lhotse með …
Höddi ásamt ferðafélaga og Sjerpum á toppnum á Lhotse með Everest í bakgrunni. Ljósmynd/Aðsend

Svaf í súrefnistjaldi

Spurður hvernig hann hafi undirbúið sig fyrir leiðangurinn kveðst Höddi í aðalatriðum leggja áherslu á að vera í sem bestu líkamlegu ásigkomulagi og nærast vel.

„Það er mikið af náttúruhlaupum, upp og niður Esjuna, eða bara tröppuvélin í World Class.“

Til að undirbúa sig fyrir lofthæðina svaf Höddi í súrefnistjaldi í sex vikur áður en hann lagði af stað. Súrefnistjaldið líkir eftir þunnu háfjallalofti og er fyrirbyggjandi fyrir háfjallaveiki, ásamt því að stytta hæðaraðlögunartímabilið.

Telur þú að það hafi gert gæfumuninn?

„Já, svona Everest-leiðangur getur tekið langan tíma og ég hafði ekki alveg ótakmarkaðan tíma. Ég tók þennan pól í hæðina og á móti gat ég farið seinna af stað til Nepal. Flestir mæta í byrjun apríl og eru mögulega að toppa seinni hluta eða seint í maí. Þannig að svona leiðangur getur tekið sjö eða átta vikur. En ég var mættur til Kathamandu 23. apríl, þannig að þetta sparaði mér einhvern tíma.“

Hinn óendanlegi skuggi Everest.
Hinn óendanlegi skuggi Everest. Ljósmynd/Aðsend

„Nú er bara slakað á“

Spurður hvað sé næst í vændum hjá honum kveðst hann bara ætla að hvíla sig í faðmi fjölskyldu sinnar.

„Ég er mjög sáttur við það að vera kominn í faðm fjölskyldunnar, til minnar yndislegu konu og okkar fjögurra barna.“

Svo nú er bara verið að slaka á?

„Nú er bara slakað á. Það er ekkert annað í boði. Maður er mjög slappur eftir eitt til tvö 8.000 metra fjöll og við það bætist dægurvilla, það er sex tíma munur á Íslandi og Nepal.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka