Finna jarðhita á köldum svæðum

Góður árangur hefur náðst í jarðhitaleit á Selfossi, en þar …
Góður árangur hefur náðst í jarðhitaleit á Selfossi, en þar hefur verið borað eftir heitu vatni nánast í miðjum bænum. mbl.is/Helgi Bjarnason

Átak umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í jarðhitaleit á köldum svæðum í fyrra og það sem af er þessu ári hefur þegar skilað eftirtektarverðum árangri.

Orkusjóður hefur styrkt þær rannsóknir með von um að unnt verði að hitaveituvæða húsnæði í auknum mæli á þeim svæðum og draga þar með úr kyndingu með rafmagni eða jarðefnaeldsneyti og spara þannig fjármuni til framtíðar.

Gerð er grein fyrir stöðu þessara mála í minnisblaði ráðuneytisins sem lagt verður fyrir ríkisstjórn í næstu viku.

Kyrrstaðan rofin

„Kyrrstaðan hefur verið rofin. Einhverra hluta vegna höfum við ekki gert mikið í jarðhitaleit á köldum svæðum í tvo áratugi, en höfum nú algerlega breytt um stefnu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

„Það verður áfram lögð áhersla á að leita að jarðhita og þessir fjármunir sem við höfum sett í þetta eru að skila sér og eru smánunir í samanburði við þá 5 milljarða sem við setjum á hverju ári í jöfnun á húshitunarkostnaði á köldum svæðum á landsbyggðinni,“ segir hann. Styrkurinn sem Orkusjóður veitir til þessara verkefna nemur alls 450 milljónum sem dreifast á þrjú ár.

58 gráðu vatn fundist í Tungudal

Jarðhitarannsóknirnar hafa t.a.m. borið þann árangur í Tungudal í Skutulsfirði, við Ísafjarðarbæ, að fundist hefur 58 gráða heitt vatn í nýtanlegu magni sem gefur vonir um að unnt verði að hitaveituvæða bæinn í náinni framtíð. Áfram verður haldið, en áður hafði verið leitað á svæðinu án árangurs. Kemur fram í minnisblaðinu að framangreindar niðurstöður gefi ríkulega ástæðu til að halda rannsóknum áfram á þessum slóðum.

Á Patreksfirði hefur fundist volgt vatn sem gefur tilefni til frekari rannsókna. Á Glámaströnd, sunnan Hólmavíkur, hefur fundist hitakerfi sem geymir 100 gráðu heitt vatn og stendur til að bora vinnsluholu á svæðinu. Á Drangsnesi gefur ný hola 62 gráða heitt vatn sem nýtist hitaveitunni á staðnum og þar með íbúum.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert