Deilt um skjólvegg, pall og heitan pott

Skjólveggur á mörkum lóðanna Laugarásvegur 61 og Laugarásvegur 63. Íbúum …
Skjólveggur á mörkum lóðanna Laugarásvegur 61 og Laugarásvegur 63. Íbúum við Laugarásveg 63 er gert að fjarlægja vegginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúum við Laugarásveg 63 í Reykjavík ber að fjarlægja skjólvegg sem settur var upp við mörk lóðarinnar. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir að nágrannar við Laugarásveg 61 kærðu uppsetningu veggjarins. 

Fleiri deiluefni eru í gangi um umrædda lóð, til að mynda um heitan pott og timburpall. Þá féll úrskurður hjá sömu úrskurðarnefnd á dögunum þar sem ákvörðun byggingarfulltrúa borgarinnar um að aðhafast ekki vegna stoðvegg sem reistur var án leyfis við Laugarásveg 59 var felld úr gildi.

Kostnaður við vegginn var um tvær milljónir

Í nýföllnum úrskurði um skjólvegginn kemur fram að reynt hafi verið að ná samkomulagi við nágranna undanfarna mánuði. Benda eigendur á að hinn umdeildi skjólveggur hafi staðið í þrjú og hálft ár og kostnaður við hann hafi verið um tvær milljónir króna. „Veggurinn hafi verið reistur í góðu samkomulagi og að hluta til í samstarfi við eiganda aðliggjandi lóðar. Þegar kærendur hafi óskað skriflegs samþykkis hafi það þó ekki fengist og munnlegt samþykki afturkallað með textaskilaboðum 20. júní 2023. Þar hafi jafnframt komið fram að skriflegt samþykki yrði ekki veitt. Eigendur Laugarásvegar 61 hafi ekki krafist stöðvunar framkvæmda þegar skjólveggurinn var reistur og hafi fyrst með málarekstri þessum verið óskað eftir því að veggurinn yrði fjarlægður,“ segir í málsrökum eigenda veggjarins. 

Lýsa þeir óánægju með málsmeðferð byggingarfulltrúa sem hafi meðal annars hótað 25 þúsund króna dagsektum. Reykjavíkurborg segir hins vegar að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjólvegg. 

Ekkert byggingarleyfi fyrir hendi

„Byggingarfulltrúi hafi reynt til hins ítrasta að finna niðurstöðu sem aðilar gætu sætt sig við og hafi beðið lengi eftir því að samkomulag myndi nást vegna girðingarinnar á sameiginlegum lóðamörkum þeirra og veitt fresti í því skyni. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að meðalhófi hefði verið beitt með því að fara ekki fram á að steyptur veggur á lóð kærenda yrði fjarlægður en í staðinn yrði hin umdeilda girðing fjarlægð eða færð innar á lóðina. Á þann hátt mætti mæta kröfum beggja aðila þannig að sem minnst tjón hlytist af fyrir þá sem þegar höfðu lagt í kostnað vegna óleyfisframkvæmdarinnar. Kærendur hafi virst sáttir við þá niðurstöðu allt þar til komið hafi að því að fjarlægja girðinguna.“

Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir að hinn umdeildi skjólveggur sé byggingar­leyfis­skyldur og óumdeilt sé að ekki hafi fengist byggingarleyfi fyrir honum. „Var byggingar­fulltrúa því heimilt að krefjast þess af kærendum að þeir fjarlægðu skjólvegginn,“ segir þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert