Gert að greiða þrotabúi föður síns 2,6 milljarða

Dagsetning kaupsamningsins var lykilatriði í málinu.
Dagsetning kaupsamningsins var lykilatriði í málinu. Samsett mynd

Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms um að rifta sölu Karls Emils Wernerssonar á félaginu Toska ehf. til sonar hans Jóns Hilmars Karlssonar.

Jóni Hilmari er gert að greiða þrotabúi Karls 2.652.753.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. janúar 2019 til greiðsludag, sem er önnur niðurstaða en héraðsdómur hafði komist að.

Karl Emil afsalaði Toska til sonar síns fyrir 1,1 milljónir króna. Toska var móðurfélag Faxa sem átti félagið Faxar. Félagið Faxar átti nær allt hlutaféð í Lyf og heilsu sem og fasteignir.

Héraðsdómur hafði gert Jóni að greiða þrotabúi Karls ríflega 464 milljónir króna sem var virði Toska, miðað við forsendur héraðsdóms á þeim tíma.

Landsréttur komst hins vegar að því að dagsetning kaupsamnings hefði verið önnur en miðað var við í héraðsdómi og því andvirði félagsins ríflega 2,6 milljarðar króna þegar að kaupsamningurinn var gerður.

Viðskiptin áttu sér stað 29. apríl 2016 eða síðar

Í dómi héraðsdóms var miðað við að dagsetning undirritunar kaupsamningsins hafi verið 13. janúar 2014 en þrotabú Karls hélt því fram að dagsetningin væri röng og salan hefði gerst eftir 28. apríl 2016, sem Landsréttur tók undir.

Hluti af gögnunum sem voru nýtt í dómi Landsréttar voru ekki til staðar þegar héraðsdómur komst að sinni niðurstöðu, sem útskýrir meðal af hverju Landsréttur kemst að annarri niðurstöðu en héraðsdómur hvað varðar dagsetningarnar.

Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu, með vísan til heildstæðs mats á framlögðum gögnum og misræmis í þeim, að sannað teldist að viðskipti Karls og Jóns hefðu átt sér stað 29. apríl 2016 eða síðar.

Dagsetningarnar lykilatriði

Eru þessar dagsetningar lykilatriði þar sem héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að 13. janúar 2014 væri dagurinn sem kaupsamningurinn var gerður.

Þá var virði Toska mun minna, eða rúmlega 464 milljónir króna, þar sem Lyf og heilsa var ekki inn í samstæðunni og því samkvæmt dómi héraðsdóms þurfti Jón Hilmar aðeins að greiða þrotabúinu þá upphæð.

Landsréttur mat það sem svo að sannað væri af hálfu þrotabúsins að kaupsamningurinn hafi ekki verið gerður fyrr en eftir 28. apríl 2016.

Vísaði Landsréttur til þess að samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns hefði virði allra hluta í Toska þann 29. apríl 2016 numið 2.653.886.000 krónum.

Ánægður með niðurstöðu Landsréttar

Kaupsamningnum var rift þar sem innborgun af hálfu Jóns þann 6. desember 2014, að fjárhæð 1.133.000 krónur á reikning Karls, var metin sem gjöf þar sem misræmið á milli virði félagsins og upphæðarinnar væri verulegt.

Í héraðsdómi vildi þrotabúið fá hlutabréfin í Toska til baka, en héraðsdómur féllst ekki á það. En þess í stað var komist að því að Jón þyrfti að greiða andvirði hlutafjárins til baka. Eins og fyrr segir hefur það nú verið metið upp á rúmlega 2,6 milljarða króna.

Árni Ármann Árnason, skiptastjóri þrotabúsins sem flutti málið fyrir Landsrétti, segir í samtali við mbl.is að hann sé ánægður með niðurstöðu Landsréttar þar sem fallist hafi verið á kröfur þrotabúsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert