30 daga fangelsi fyrir ofsaakstur sem endaði á túni

Maðurinn var ákærður fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi.
Maðurinn var ákærður fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi. mbl.is/Þorsteinn

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og svipt hann ökuréttindum fyrir að hafa ekið bifreið á að minnsta kosti 142 kílómetra hraða og valdið líkamsmeiðingum af gáleysi með akstrinum.

Manninum var gefið að sök að hafa brotið gegn umferðarlögum en leyfilegur hámarkshraði var 90 kílómetra hraði á veginum sem hann ók. Jafnframt var hann ákærður fyrir brot gegn almennum hegningarlögum.

Maðurinn neitaði sök og taldi háttsemina sem honum var gefið að sök ósannaða. Að auki vildi hann meina að sök hans hefði verið fyrnd.

Bifreiðin logaði á túninu

Málsatvik eru þau að lögreglunni barst tilkynning 6. nóvember árið 2020 klukkan 14.30 um bílveltu við bæinn Syðri Bægisár í Öxnadal. Þegar lögreglu bar að garði lá bifreið á hvolfi um 16 metra frá veginum og logaði eldur í vélarrúmi og farþegarými. Ökumaður og farþegi lágu á túninu og var verið að hlúa að þeim.

Ummerki á vettvangi gáfu til kynna að bifreiðinni hefði verið ekið norður hringveginn í Öxnadal. Í víðri beygju neðan við Syðri Bægisá virtist bifreiðin hafa farið beint áfram út úr beygjunni og eftir vegkantinum þar til hún hafnaði á uppfyllingu yfir röri undir veginum.

Þá hafi hún kastast inn á túnið þar sem hún hafi endastungist og hafnað á hvolfi.

Slysið gerðist í nóvember árið 2020 í Öxnadal.
Slysið gerðist í nóvember árið 2020 í Öxnadal. mbl.is/Gúna

Í málinu lá fyrir álitsgerð prófessors í vélaverkfræði við Háskóla Íslands um hraða bifreiðarinnar þegar slysið varð. Samkvæmt álitsgerðinni var ætlaður hraði bifreiðarinnar 154 km/klst en mesti mögulegi hraðinn 165 km/klst og minnsti 142 km/klst.

Verjandi mannsins vefengdi ekki álitsgerð prófessorsins en gerði athugasemdir við forsendur hennar. Taldi hann rannsókn lögreglu ekki nægilega trausta en hún var forsenda niðurstöðu álitsgerðarinnar.

Sökin ekki fyrnd

Dómurinn hafnaði þeim sjónarmiðum mannsins og taldi þvert á móti rannsókn lögreglu hafa verði nákvæma og vettvangur vandlega kannaður. Kom ekkert fram í málinu sem hnekkti álitsgerð prófessorsins.

Um þá vörn ákærða að sök hans væri fyrnd hafnaði dómurinn því. Ástæðan var sú að brot hans varðar skilorðsbundið fangelsi og var fyrningarfresturinn því fimm ár en ekki tvö ár. Ákæra var gefin út í desember 2023 og var sökin því ekki fyrnd.

Þá segir að lokum í dómnum að maðurinn hafi ekki átt sakarferil að baki sér og að óumdeilt sé að slysið hefði tekið mjög á hann. Tjónið sem hann olli með háttsemi sinni hafi aftur á móti verið verulegt á heilsu farþega bifreiðarinnar. Jafnframt hafi háttsemin verið hættuleg öðrum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert