Telja heita vatnið nóg fyrir þriðjung Ísafjarðar

Orkubú Vestfjarða borar eftir heitu vatni fyrir byggðina.
Orkubú Vestfjarða borar eftir heitu vatni fyrir byggðina. mbl.is/Helgi Bjarnason

Orkubú Vestfjarða vinnur hörðum höndum að því að ná upp heitu vatni og koma því til byggða, eftir að komið var óvænt niður á uppsprettu þess í Tungudal í maí.

Elías Jónatansson, orkubústjóri Vestfjarða, segir að búið sé að dýpka holuna niður í rúmlega 750 metra. Nú eigi eftir að rýmka hana og gera mælingar á meðal annars hita og magni.

Kveðst hann telja of snemmt að segja til um hvenær vatnið verður komið til byggða.

Holtahverfi og Tunguhverfi

Er þetta nóg af vatni fyrir alla byggðina?

„Við teljum það örugglega nóg fyrir byggðina í firðinum, sem sagt það sem við köllum Holtahverfi og Tunguhverfi,“ segir Elías. „Það er allt sem bendir til þess að það nægi fyrir þann hluta, sem er svona þriðjungur af Ísafirði,“ bætir hann við. 

Þó liggi ekki fyrir nákvæmar magnmælingar til hægt sé að segja til um það með vissu. 

Hafi varann á í kringum vatnið

Elías vill þó minna á það að ekki sé verið að stjórna hitastiginu og rennslið því óútreiknanlegt. 

„Það er enginn sem stjórnar hitanum á vatninu og við vitum að fullheitt vatn er 58 gráða heitt og stundum getur komið bara heitt vatn.“

Á vef Orkubús Vestfjarða er varað við því að engin hitastýring sé á vatninu og þar með geti hitastigið á frárennslinu breyst. Því er mælst til þess að fólk hafi varann á og gæti að börnum í kringum uppsprettuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert