Lítil breyting á gosinu og gasmengun lítil

Virkni eldgossins við Sundhnúkagíga svipuð og síðustu daga.
Virkni eldgossins við Sundhnúkagíga svipuð og síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lítil sem engin breyting er á gosinu í Sundhnúkagígum frá því í gær. Skjálftavirkni hefur ekki aukist.

Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Spurð hvort það bendi enn allt til þess að gosinu fari að ljúka segir Lovísa erfitt að segja til um það. 

„Það er áframhaldandi landris og við þurfum í raun bara að sjá hvað verður, hvort þetta verði eins og síðast eða hvort þetta verði öðruvísi,“ segir hún.

Lítil gosmengun um þessar mundir

Lítil gosmengun er á svæðinu eins og stendur, en norðvestan átt er á svæðinu og fer gasmengunin beinustu leið út á sjó í suðaustur, segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann reiknar með að þannig verði þetta í allan dag.

„Það er stöðug norðvestan átt, þannig þetta er ekki að berast yfir land, heldur fer stystu leið út á sjó,“ segir Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert