Falsa gögn og fara gegn reglum

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það liggur fyrir að tékkneska ferðaþjónustufyrirtækið sem á rútuna sem fór út af vegi um Öxnardalsheiði fyrir helgi brýtur lög með starfsemi sinni hérlendis. Þetta segir formaður Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu. 

Rútan sem keyrði út af vegi um Öxnadalsheiði fyrir helgi var á vegum tékkneska ferðaþjónustufyrirtækisins Adventura. 10 farþegar voru lagðir inn á sjúkrahús og tveimur er enn haldið sofandi eftir slysið. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem umrætt fyrirtæki kemst í fjölmiðla hér á landi en árið 2011 fjallaði mbl.is um það þegar forstjóri fyrirtækisins bað Íslendinga afsökunar eftir að rúta frá fyrirtækinu valt í Blautulón. 

„Við þekkjum það að þetta fyrirtæki hefur komið sér í fréttir og myndir verið sendar inn á áhugahópa um rútubílamenningu á samfélagsmiðlum þar sem rútan hefur bæði sokkið í djúpt vatn, verið gripin í utanvegaakstri, hraðaakstri og ýmislegu slíku,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Rútan keyrði út af veginum í Öxnadal fyrir helgi.
Rútan keyrði út af veginum í Öxnadal fyrir helgi. mbl.is/Þorgeir

Flókið kerfi

Jóhannes segir að flókið sé að hafa eftirlit með erlendum ferðaþjónustufyrirtækjum sem halda úti starfsemi sambærilegri Adventura hér á landi: 

„Þetta er flókið kerfi og það er hluti af þessu vandamáli varðandi þessa ólöglegu starfsemi hvað eftirlitið er dreift,“ segir Jóhannes og bætir við:

„Til dæmis ef að Vinnumálastofnun hittir á rútu á Þingvallasvæðinu og sjá að þar sé eitthvað skrýtið í gangi með ökuritann, ekki rétt ökuskírteini eða eitthvað slíkt þá geta þau ekkert gert í því. Þau geta ekki kyrrsett rútuna, bara hringt í lögguna á Suðurlandi. Svo verður löggan bara að leita rútuna uppi.“

Fölsuð gögn skapa vandræði

Jóhannes segir hafa borið á því að ferðaþjónustufyrirtæki frá Austur-Evrópu falsi gögn og séu ekki rétt tryggð, en það getur haft afleiðingar í för með sér ef slys verða: 

„Það hefur borið á því inn á milli að það séu mjög gamlar rútur hérna til dæmis frá Póllandi eða öðrum ríkjum Austur-Evrópu með fyrirtækjum sem eru að stunda þessa starfsemi og það er enginn trygging fyrir því að þeir séu rétt tryggðir.  

Það geta komið upp tilvik þar sem svona rúta sem ekki er með tilhlýðilegar tryggingar lendi í óhappi og þá eru ferðamennirnir mögulega ótryggðir.

Spurður hvort það þýða að ferðamenn séu sjálfir ábyrgir fyrir því að kanna leyfi fyrirtækja sem þeir panta ferðir hjá segir hann svo vera að einhverju leyti en að þetta sé ekki eitthvað sem ferðamenn sem sæki þjónustu frá íslenskum fyrirtækjum þurfi að hafa áhyggjur af. 

Jóhannes segir Samtök ferðaþjónustunnar lengi hafa kallað eftir umbótum á kerfinu en árið 2021 gáfu samtökin út skýrslu þar sem þau lögðu fram 9 úrbótatillögur á eftirliti með ólöglegri erlendri starfsemi í ferðaþjónustu hér á landi. 

Brjóta reglur um tímamörk

Hann segir margt sem fram kemur í skýrslunni enn ábótavant en tekur fram að ein mikilvæg breyting hafi átt sér stað síðan:

„Það sem breytist 2021 eftir töluverðar ábendingar frá okkur og fordæmi frá Danmörku er að nú máttu koma með bíl inn og vera með hann hér í 12 mánuði en hvert fyrirtæki, ekki hver bíll, má bara taka að sér eitt verkefni í hverjum mánuði og má það vara í 10 daga.“

Áður höfðu ekki verið takmörk á dagafjölda starfsemi slíkra fyrirtækja hérlendis en Jóhannes segir þetta gert til að koma í veg fyrir skakka samkeppnisstöðu á markaði:

„Þetta er gert til að takmarka það að slíkar bifreiðar geti farið ferð eftir ferð um landið með bílstjóra sem fái greitt mun minna en ökumenn sem vinna hjá íslenskum fyrirtækjum. Því þannig verður sú staða að þessi fyrirtæki geti boðið þjónustuna miklu ódýrara því þau eru einfaldlega að svindla á íslenskum reglum.“

Jóhannes segir þá skýrt að í tilfelli Adventura sé umrædd regla brotin: 

„Það sem við teljum alveg skýrt er að þessi starfsemi,  þessi bíll frá þessu fyrirtæki sem er vel þekktur hér af hálendinu og vegunum á sumrin, bæði af góðu og minna góðu, brýtur beinlínis í bága við þessa reglu um  að erlend ökutæki hér í atvinnustarfsemi megi bara taka að sér eitt verkefni í 10 daga í hverjum mánuði. Það þarf ekki annað en að fara inn á bókunarsíðu þessa fyrirtækis til að sjá að þar er hægt að bóka 15 daga ferðir hverja á fætur annari í allt sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert