Telur kaupin verða bændum og neytendum til hagsbóta

Trausti Hjálmarsson er formaður Bændasamtakanna.
Trausti Hjálmarsson er formaður Bændasamtakanna. Ljósmynd/Aðsend

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, telur að kaup Kaup­fé­lags Skag­f­irðinga á allt að 100% hlut­afjár í Kjarna­fæði Norðlenska hf. verði bændum og neytendum til hagsbóta.

Greint var frá því um helgina að hlut­haf­ar í Kjarna­fæði Norðlenska hf. höfðu samþykkt til­boð Kaup­fé­lags Skag­f­irðinga um kaup á allt að 100% hluta­fjár í Kjarna­fæði Norðlenska hf.

Kaupin eru möguleg vegna nýrra búvörulaga sem voru samþykkt í mars. Þau fela meðal ann­ars í sér und­anþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá sam­keppn­is­lög­um sem ger­ir þeim auðveld­ara fyr­ir að sam­ein­ast. 

Deilt hefur verið um áhrif kaupanna fyrir neytendur.

Löngu tímabært skref

„Markmið frumvarpsins var að ná fram hagræðingu í sláturiðnaði hér á Íslandi og með það að meginmarkmiði að bæta hag neytenda og bænda,“ segir Trausti og bætir við:

„Þetta er löngu tímabært skref, að gefa tækifæri til að lækka framleiðslukostnað á íslenskum matvælum, og kjötvöru í þessu tilfelli. Það á ekki að koma neinum á óvart að það sé gert, til þess var frumvarpið samþykkt á Alþingi.“

Fyrirtækin verði betur stödd

Þú gerir ekki ráð fyrir því að verð á kjötvöru muni hækka?

„Ég geri ekki ráð fyrir því að það muni hækka neitt umfram aðrar vörur á íslenskum markaði. Ég geri ráð fyrir því að verð til bænda lagist án þess að hafa neikvæð áhrif á verð til neytenda,“ segir Trausti. 

Þá segir Trausti að fyrirtæki í sláturiðnaði muni einnig vera betur í stakk búin til að greiða ákveðnar hækkanir sem þurfi að greiða til bænda, ekki muni þurfa leita í vasa neytenda til að standa straum af þeim kostnaði.

„Ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tímann verið neikvætt að stíga skref til hagræðingar til að lækka framleiðslukostnað til að halda vöruverði niðri en jafnframt standa betur í skil við þá sem eru í frumframleiðslu matvæla, sem eru bændur,“ segir Trausti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert