Skora á Vegagerðina og ÞG Verk að klára viðræður

Brú­in yfir Ölfusá er kom­in til ára sinna og nú …
Brú­in yfir Ölfusá er kom­in til ára sinna og nú er stefnt að nýrri slíkri ofan við byggðina. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarráð Árborgar skorar á Vegagerðina og ÞG Verk ehf. að ljúka samningum um nýja Ölfusárbrú án tafar svo að framkvæmdir geti hafist í haust. Viðræður hafa staðið yfir í rúmlega 5 mánuði. 

Þessi áskorun var samþykkt á fundi bæjarráðs í gær.

Morgunblaðið greindi frá því í júní að samn­ingaviðræður um bygg­ingu Ölfusár­brú­ar stæðu enn yfir milli Vega­gerðar­inn­ar og ÞG Verks. ÞG Verk var eina fyrirtækið sem skilaði inn tilboði og var það í mars. 

Þjóðvegurinn annar ekki núverandi umferð

Fram kemur í áskoruninni að þjóðvegurinn í gegnum Selfoss anni ekki núverandi umferð og því sé brýnt að uppbygging brúarinnar hefjist.

„Langar raðir liggja daglega upp að hringtorgi við Biskupstungnabraut og með fram Austurvegi þar sem umferð er á leið í vesturátt. Ný Ölfusárbrú bætir umferðarflæði og umferðaröryggi í og við Selfoss,“ segir í áskoruninni.

Gert er ráð fyrir að uppbygging nýrrar brúar taki um þrjú ár, samkvæmt bæjarráði, og því sé nauðsynlegt að framkvæmdir hefjist í haust.

Ný Ölfusárbrú við Selfoss verður 330 metra löng og stöpull …
Ný Ölfusárbrú við Selfoss verður 330 metra löng og stöpull fyrir miðju verður um 60 metra hár, með stögum niður að brúargólfi. Teikning/Vegagerðin

Áætlaður kostnaður allt að 8 milljarðar

Vega­gerðin óskaði eft­ir þátt­tak­end­um í fyr­ir­huguðu útboði að gerð brú­ar­inn­ar snemma á síðasta ári og í lok nóv­em­ber síðastliðins var þeim fimm fyr­ir­tækj­um sem vildu taka þátt í útboðinu send gögn varðandi það.

Niðurstaðan var sú að aðeins ÞG Verk skilaði inn tilboði og var það í mars síðastliðnum.

Upp­hæð til­boðsins hef­ur ekki verið gef­in upp, en áætlaður kostnaður við brúna er allt að 8 millj­arðar króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert