Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir borgarís hafa verið kominn ansi nálægt landi í gær en hvítabjarnarhúnn var aflífaður á Höfðaströnd í Jökulfjörðum eftir að hafa sést í nálægð við sumarhús. Eldri kona hélt til í húsinu.
„Það voru borgarísjakar bæði djúpt vestur af Vestfjörðum og síðan aðrir komnir inn í Húnaflóa austur af Vestfjörðum og það var töluvert um borgarís á þessum slóðum,“ segir Ásgeir.
Landhelgisgæslan fór í tvær eftirlitsferðir í gær til að ganga úr skugga um að ekki væru fleiri birnir nærri landi.
„Það var farið strax eftir að þessu lauk þarna inni í Jökulfjörðum. Svo var farið inn á Ísafjörð og tankað og þá farin önnur ferð þarna aðeins um. Það var ekkert að sjá,“ segir Ásgeir.