„Stórkostlegt að fá Ant­on Svein“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er stórkostlegt að fá Ant­on Svein McKee til þess að leiða þetta,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, um nýstofnaða ungliðahreyfingu Miðflokks­ins í Suðvest­ur­kjör­dæmi.

Sundmaðurinn og Ólymp­íufarinn Ant­on Sveinn leiðir hreyfinguna, en hún var stofnuð í gær. Félagið heitir Freyfaxi og er fyrsta ungliðafélagið í Miðflokknum.

„Mér finnst líklegt að fleiri muni fylgja á eftir. Þarna kom saman gríðarlega öflugur hópur ungs fólks sem setti heilmikinn kraft í þetta og dreif bara í þessu. Það er búið að vera frábært að fylgjast með þeim og sjá þetta gerast,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við mbl.is.

Anton Sveinn var kjörinn formaður í gær.
Anton Sveinn var kjörinn formaður í gær. Ljósmynd/Aðsend

Hafa heyrt í ungu fólki um allt land

Þá segir Sigmundur Miðflokkinn hafa rætt við margt ungt fólk um allt land til að taka þátt í uppbyggingu ungliðahreyfinga í fleiri kjördæmum. Hann segir það vera mikinn styrk fyrir flokkinn að hafa ungt fólk með sér í liði. 

„Það er gríðarlegur styrkur í því fólginn fyrir okkur, sérstaklega núna þegar ýmis málefni ungs fólks eru í brennidepli og þarf að taka á þeim,“ segir Sigmundur og nefnir sem dæmi húsnæðismálin og heilsu ungmenna. 

Miðflokkurinn hefur verið að mælast með gott fylgi á síðustu mánuðum. Spurður hvort hann finni fyrir auknum áhuga ungs fólks á flokknum svarar Sigmundur játandi.

„Straumur ungs fólks til okkar hefur verið að aukast jafnt og þétt. Bæði strákar og stelpur. Það er gríðarlega hvetjandi að upplifa það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka