„Það getur enginn lifað á 100 þúsund krónum“

Ingveldur Marion Hannesdóttir mun missa örorkulífeyri um mánaðamótin.
Ingveldur Marion Hannesdóttir mun missa örorkulífeyri um mánaðamótin. Samsett mynd

„Það getur enginn lifað á 100 þúsund krónum á mánuði. Enginn,“ segir Ingveldur Marion Hannesdóttir en um mánaðamótin mun hún missa örorkubætur vegna þess hve lengi hún hefur dvalið inni á sjúkrahúsi á árinu.

Ingveldur sem 37 ára gömul er langveik og á örorkulífeyri. Hún fæddist án taugafruma í meltingunni sem gerir það að verkum að öll meltingarfæri hennar eru lömuð.

„Ég greinist þriggja daga gömul, er búin að vera með stóma síðan ég var tveggja vikna og magasondu frá byrjun,“ segir Ingveldur en í gegnum tíðina hefur nokkrum sinnum verið fjallað um veikindi hennar og áhrif þeirra á líf Ingveldar í Morgunblaðinu.

Missir lífeyrinn út árið

Þó að Ingveldur hafi allt sitt líf vegna veikindanna verið mikið inni á spítala hefur hún aldrei, að undanskildum fyrstu fjórum árum lífs síns, varið meiri tíma á sjúkrahúsi en á þessu ári.

„Þetta ár byrjaði þannig að ég var inniliggjandi fyrsta og annan janúar og fór svo heim þann þriðja. Þann 13. janúar uppgötvast að ég væri með [15 cm blóðtappa í vinstra læri] og mér var gefið blóðþynnandi lyf sem gerði það að verkum að ég endaði uppi á gjörgæslu með innvortis blæðingar og er búin að vera inniliggjandi síðan, fyrir utan fjóra daga í mars og fjóra í apríl.“

Í gær fékk Ingveldur póst þess efnis að þar sem hún hafi legið 180 daga inni á spítala á árinu, og þar af síðustu 30 daga samfleytt, muni hún missa örorkulífeyri sinn nú um mánaðamótin og fram til loka ársins.

Í staðinn mun hún fá svokallað ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun en það nemur 100.020 krónum á mánuði.

Síðast var fjallað um veikindi Ingveldar í Morgunblaðinu árið 2014. …
Síðast var fjallað um veikindi Ingveldar í Morgunblaðinu árið 2014. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

10 þúsund krónur eftir 

Ingveldur segir að þetta muni engan veginn duga fyrir reikningum og öðrum útgjöldum.

„Ég þarf að borga reikninga nákvæmlega eins og aðrir, síma, lán, tryggingar, allt saman.“

Aðspurð segir Ingveldur að fastir reikningar sínir nemi um 90 þúsund krónum á hverjum mánuði en inni í þeirri upphæð séu fasteignagjöld af sumarhúsi sem hún á, tryggingagjöld, símreikningur og rafmagn.

Þegar þeir reikningar verða greiddir um mánaðamótin mun Ingveldur aðeins eiga um 10 þúsund krónur eftir.

Og þá á enn eftir að borga ýmislegt. Hún er bæði á sýklalyfjum sem ekki eru niðurgreidd af sjúkratryggingum og verkjalyfjum auk ýmissa fæðubótarefna.

„Bara lyfin mín í gær kostuðu mig 25 þúsund kall, þó að ég sé inniliggjandi,“ segir Ingveldur.

„Það þarf að breyta þessum lögum“

Það liggur því fyrir að ráðstöfunarféð mun ekki duga til að greiða allan fastan kostnað í lífi Ingveldar og hvað þá nokkuð annað.

Spurð hvort hún sjái einhverja leið út úr þessum vanda er fátt um svör.

„Ég þarf örugglega að taka lán, en ég held að það séu ekki margir til í að gefa einstaklingi á örorku lán,“ segir Ingveldur og bætir við:

„Þannig ég sé ekki fram á að það heppnist.“

Hún á þó enn eftir að kanna hvort einhvern fjárhagsstuðning sé að fá frá sveitarfélagi en er ekki vongóð um þann kost.

„Það þarf að breyta þessum lögum, [...] að mínu mati eru þetta lög sem ættu ekki að vera til staðar,“ segir Ingveldur að lokum.

Ingveldur hefur verið með stóma frá því hún var tveggja …
Ingveldur hefur verið með stóma frá því hún var tveggja vikna. mbl.is/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert