Á Suðurgötunni í Reykjavík er að finna gult hús sem er griðastaður ungs fólks í vanda. Hundrað ungmenni á aldrinum 12 til 25 ára mæta þangað vikulega, hitta þar ráðgjafa og tala um sín hjartans mál. Sigurþóra Bergsdóttir er þar í brúnni og leiðir hóp fagfólks sem sinnir þessu brýna verkefni; að ljá eyra og gefa góð ráð, að leiðbeina og sýna samkennd.
Í samfélagi sem nú er lamað af sorg eftir harmleiki þar sem börn og ungmenni koma við sögu veitir ekki af stað eins og Berginu. Starfið sem þar er unnið veitir mörgum ungmennum sálarró og bjargar jafnvel mannslífum.
Sigurþóra er vinnusálfræðingur að mennt. Haustið 2018 stofnaði hún félagasamtök, sem seinna fengu nafnið Bergið Headspace, í þeim tilgangi að bjóða ungmennum upp á úrræði við sínum vandamálum. Á þessum tíma segir hún fagfólk hafa upplifað ákveðið úrræðaleysi og mörgum fannst andleg heilsa ungmenna ekki góð.
„Ég er glöðust og stoltust af því að við erum alltaf hér á þeirra forsendum. Krakkarnir koma hingað og það er hlustað á þau, sama hvað þau vilja tala um. Við göngum ekki út frá neinum greiningum, enda erum við ekki meðferðaraðilar heldur veitum ráðgjöf og stuðning,“ segir hún og bætir við að ungmennin segi gjarnan hvert öðru frá Berginu.
„Þau tala um einelti, erfiðleika í samskiptum við aðra, leiða í skóla, ofbeldi og almenna vanlíðan. Mörg þeirra sem koma fá ekki mikinn stuðning annars staðar frá,“ segir Sigurþóra og að þau taki á móti hundrað ungmennum á viku, en útibú eru til staðar í Hafnarfirði, Kópavogi og á Akureyri. Hjá Berginu vinna félagsráðgjafar, kennarar og sálfræðingar með mikla reynslu að baki.
Hvernig getið þið hjálpað þeim?
„Við fyrst og fremst hlustum og eigum samtal. Þau ná þá svolítið að greiða úr sínum málum og ná ákveðinni jarðtengingu. Við erum auðvitað að gefa þeim bjargráð og ráðleggingar um hvernig þeim getur liðið betur en allt á þeirra forsendum. Þegar þau fá þessa hlustun og þetta rými, og þau ná trúnaðarsambandi, þá eru þau oft sjálf mjög ráðagóð,“ segir Sigurþóra og nefnir að ungmenni í mikilli neyslu leiti ekki til þeirra alla jafna.
„Sum sem koma eru að byrja í neyslu og eftir að hafa komið hingað minnka þau hana oft. Um áttatíu prósent af þeim sem hingað koma þurfa ekkert annað en að koma hingað, en svo er hinn hópurinn sem þarf aðeins meira. Þá hjálpum við þeim að verða tilbúin til að halda áfram, til dæmis að fara í áfalla- eða kvíðameðferð, eða fíknimeðferð. Við styðjum því vel við önnur meðferðarúrræði og oft verða þau tilbúnari að fara eftir að hafa verið hjá okkur.“
Sonur Sigurþóru, Bergur Snær, svipti sig lífi árið 2016, en hann lenti í heljargreipum ofbeldismanns.
„Hann lenti í miklu kynferðisofbeldi af hendi manns sem var okkur ekki tengdur. Það stóð yfir í þrjú ár og ég vissi ekki neitt. Lögreglan hafði samband við okkur og lét okkur vita að hann hefði lent í klónum á honum. Lögreglan nefndi að nafn Bergs hefði komið upp í tengslum við þetta mál, en ég trúði þessu ekki og var í algjörri afneitun. Bergur neitaði því í þrjá mánuði. En svo sáum við skilaboð frá gerandanum úr fangelsinu til Bergs og þá endaði það með því að hann brotnaði niður og sagði frá,“ segir hún.
„Ég hefði viljað að staður eins og Bergið hefði verið til staðar fyrir son minn,“ segir hún og segir þau foreldrana hafi leitað allra úrræða til að hjálpa syni sínum sem var uppfullur af skömm og vanlíðan.
Saga þessi fær ekki meira pláss í viðtalinu en þessi hræðilega lífsreynsla leiddi Sigurþóru á þann stað sem hún er nú á; að hjálpa ungmennum í Berginu.
„Ég hefði aldrei opnað Bergið ef þetta hefði ekki gerst. Ég var með sjóð en vildi ekki halda enn eitt málþingið eða námskeið. Það er margt nýtt í gangi en samt finnst mér kerfið alltaf lokað fyrir foreldrum og unglingum. Það er stundum eins og hljóð og mynd fari ekki saman. Við erum að eyða óhemjumiklum peningum og orku og erum með frábært fagfólk, en náum ekki að nýta það,“ segir hún.
Oft var þörf en nú er nauðsyn að halda vel utan um unga fólkið okkar en ítrekuð áföll hafa dunið yfir þjóðina undanfarið. Morð, ofbeldi og vopnaburður ungmenna er meðal annars mikið í umræðunni og mikið rætt um hvaða leiðir eigi að fara til að styðja betur við unga fólkið okkar sem virðist oft ekki líða vel.
Sigurþóra segist hugsi yfir ástandinu og hefur velt mikið fyrir sér hvað sé til ráða.
„Ég næ varla andanum yfir öllum þessum fréttum. Við þurfum að styrkja okkur í að við séum samábyrg í þessu. Við þurfum að styrkja umhverfið og foreldrana og hjálpa þeim að setja börnum mörk, en einnig kennara til að þeir geti tekist á við vanlíðan barnanna. Allt þetta fólk er velviljað og þjálfað en stundum er vandamálum vísað til sérfræðinga. Við tökum þá styrkinn frá nærumhverfinu. Við höfum alveg áhuga á því að þjálfa fólk í því hvernig mínir ráðgjafar vinna. Þetta eru ekki geimvísindi; þetta snýst um að anda með krökkunum og horfa í augun á þeim. Ég held að við þurfum að styrka allt nærumhverfið,“ segir Sigurþóra og heldur áfram:
„Það er hægt að fækka börnum í bekk og auka stuðning í stofurnar. Það eru alveg til peningar. Við getum ekki boðið börnunum okkar, og kennurum og öðrum, upp á svona ástand. Það er svo margt sem við getum virkjað í okkar samfélagi og þurfum að styrkjast í því að við ætlum að hafa þetta öðruvísi. Í okkar samfélagi höfum við öll eitthvað að segja eða fram að færa. Ég fattaði einn daginn að ég gæti bara búið til Bergið, ein kona úti í bæ! Svo fæ ég til mín fullt af fólki sem er til í hjálpa að gera gott fyrir aðra. Það er svo margt í samfélaginu sem hægt er að nýta,“ segir hún og segir nauðsynlegt að efla foreldrasamstarf.
„Þannig búum við til samheldnara samfélag. Ég held að foreldrar séu að leggja sig fram en samfélagslega hefur hér orðið ákveðið rof vegna þess að fólk lifir svolítið í gerviheiminum.“
Gildir kannski gamla góða máltækið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn?
„Þetta er svolítið þar. Við þurfum að virkja þorpið í okkur aftur. Ef ég væri stjórnvöld myndi ég hvetja til allra hugmynda sem koma úr grasrót, innan úr samfélaginu, svo hægt sé að virkja fólk til að búa til eitthvað gott og skemmtilegt í umhverfi sínu. Það þarf að gefa því fólki hvatningu og pláss eða stað,“ segir Sigurþóra og telur að rof í samfélaginu megi ef til vill rekja að einhverju leyti til covid-áranna.
„Nú þurfum við að finna leiðina aftur og búa til samfélagstilfinningu. Einmanaleiki og aftenging er talin vera stærsta hættan í dag hjá ungmennum.“
Nú er staðan sú hjá Berginu að fjárhagserfiðleikar blasa við. Þjóðin þarf að taka höndum saman til að þar sé hægt að halda áfram góðu starfi í þágu ungmenna landsins.
„Næstu styrkir frá ríkinu koma ekki fyrr en á næsta ári. Við ætlum að vera með tónleika í Iðnó 26. september sem við köllum samverutónleika en við viljum að foreldrar og unglingar geri eitthvað skemmtilegt saman. Það er mikilvægt að við höldum börnum okkar nálægt okkur og njótum samverunnar. Þar koma fram Páll Óskar og Frikki Dór og það verður rosa gaman,“ segir Sigurþóra og nefnir að hægt verði að hringja í númer og styrkja Bergið Headspace, en þau vanti 30 milljónir. Sigurþóra segir þau kalla styrktaraðila Bergsins Bergrisa, en hægt er að styrkja Bergið með því að fara á bergid.is/donate eða leggja inn á 0301-26-10481, kt. 4310180200. Einnig verður hægt að styrkja Bergið með því að hringja í númerin: 9081001: 1.000 kr., 9081003: 3.000 kr., 9081005: 5.000 kr.
Bergið, nefnt eftir syni hennar, hefur sannarlega sannað ágæti sitt og segist Sigurþóra alveg viss um að Bergið hafi bjargað mannslífum.
„Ég er sannfærð um það og veit um nokkur tilvik þar sem það er mjög líklegt,“ segir hún.
„Þegar fólk lendir í því að missa einhvern svona ungan, svona skyndilega og brútalt, upplifir það hvað endanleikinn er algjör. Alveg sama hvað ég myndi láta öllum illum látum yfir því að Bergur er dáinn, þá fæ ég hann ekki aftur. Þá er eins gott að finna leið til að halda áfram og það er það eina sem hægt er að gera,“ segir Sigurþóra og nefnir að hlutir öðlist oft aðra merkingu eftir svona harmleik.
„Kannski fylltist ég ákveðnu óttaleysi. Gamla ég hefði varla þorað að stofna Bergið heldur verið skíthrædd um að þetta myndi ekki ganga,“ segir hún og er sátt við árangur Bergsins hingað til, en segist nú þurfa smá aðstoð.
„Nú þarf ég bara að safna 30 milljónum!“ segir Sigurþóra og brosir breitt.
Ítarlegt viðtal við Sigurþóru er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.