Þrír karlar og ein kona úrskurðuð í gæsluvarðhald

Í tilkynningu lögreglu segir að rannsóknin sé umfangsmikil.
Í tilkynningu lögreglu segir að rannsóknin sé umfangsmikil. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír karlar og ein kona voru í dag úrskurðuð í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur til föstudagsins 27. september vegna rannsóknar á innbrotum.

Fjórmenningarnir voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu og Keflavíkurflugvelli en þrír til viðbótar eru jafnframt í haldi lögreglu vegna málsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.

Einstaklingarnir sjö eru erlendir ríkisborgarar en lögregla hefur ekki tekið ákvörðun um hvort embættið fari fram á gæsluvarðhald yfir þremenningunum sem eru í haldi.

Rannsóknin er sögð umfangsmikil. Lögregla hefur gert húsleitir og lagt hald á tvö ökutæki.

Miklum verðmætum stolið

Í tilkynningunni segir að um sé að ræða innbrot í tvær verslanir á höfuðborgarsvæðinu seint á sunnudagskvöld og aðfaranótt mánudags. Verslanirnar tvær eru í Kópavogi og Reykjavík.

Málin voru tilkynnt til lögreglu í gærmorgun en miklum verðmætum var stolið, að því er fram kemur í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert