Sigurður Ingi: „Þykist ekki vera bestur í heimi í stærðfræði“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra …
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra tókust á um reikniaðferðir og sögðu hvor annan fara með fleipur. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg/Eggert

„Það er af fullkomnu lítillæti sem ég þykist ekki vera bestur í heimi í stærðfræði og það getur vel verið að háttvirtur þingmaður hafi það rétt til máls að bera að honum finnist kerfið fínt, að taka 7,5 eða 8 milljarða og dreifa til lífeyrissjóða sem eiga 8.000 milljarða og eru ekki með aukna örorkubyrði. Mér finnst það ekki gáfulegt.“

Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi dag þar sem hann svaraði fyrirspurn varðandi lífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóðum með aukna örorkubyrði.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var fyrirspyrjandi og hann sakaði m.a. ráðherra um að kunna ekki að reikna.

Finnst ráðherra það réttlát niðurstaða?

„Ef jöfnunarframlag ríkisins til lífeyrissjóða fellur niður að fullu, eins og ríkisstjórnin leggur til að gerist árið 2026, verða lífeyrisgreiðslur hjá Gildi að meðaltali 30.000 kr. lægri á mánuði en hjá öðrum sjóðum. Finnst hæstvirtum fjármálaráðherra það réttlát niðurstaða? Getur hæstvirtur ráðherra horft framan í verkafólk í landinu, horft framan í láglaunafólk og útskýrt hvers vegna það fólk sem hefur fyrst og fremst unnið erfiðisvinnu eigi að njóta miklu lakari lífeyrisréttinda en annað launafólk,“ spurði Jóhann Páll.

Sigurður Ingi sagði að hann héldi að nánast allt hefði verið rangt í málflutningi Jóhanns Páls.

„Við erum að tryggja að þeir sjóðir sem eru með aukna byrði, sem háttvirtur þingmaður taldi réttilega upp, verði ekki fyrir skerðingu. Þannig að þetta er rangt upp sett hjá háttvirtum þingmanni. Og hvort það séu ekki djúpir vasar þegar um er að ræða 8.000 milljarða lífeyrissjóði á sama tíma og ríkið er að stórauka sín framlög til örorku, þá getum við tekið þá málefnalegu umræðu á málefnalegan hátt,“ sagði ráðherrann.

Ráðherra sem kann ekki að reikna

Jóhann Páll sagði að það væri ótrúlegt að verða vitni að þessu.

„Þetta er sami hæstvirtur ráðherra og kom hérna í síðustu viku og kom með í fjárlagafrumvarpi sínu og fullyrðir ranglega að með hækkun á frítekjumarki lífeyristekna sé verið að færa eldri borgurum að jafnaði kjarabót upp á 138.000 kr., nokkuð sem hver sem skilur skerðingarreglur almannatryggingakerfisins veit að er rangt. Þetta er ráðherra sem kann ekki að reikna og hér kemur hann upp og heldur því fram ranglega að allt sem ég hélt fram áðan í ræðustól sé einhvern veginn rangt. Reikningsdæmið hjá hæstvirtum ráðherra í þessu máli gengur ekkert upp,“ sagði Jóhann Páll.

Hann spurði hvort menn gætu ekki einfaldlega sammælst um það að láta þessa sjóði vera og velta ekki aðhaldinu sérstaklega yfir á verkafólk sem hafi unnið slítandi störf um langa ævi með svona aðgerð og fara ekki með kolrangt mál í pontu aftur og aftur.

Gáfulegt að nota skattfé til að verja sjóði sem væru með aukna byrði

Sigurður Ingi sagði að sér þætti gáfulegt að nota skattfé almennings til að verja þá sjóði sem væru með aukna lífeyrisbyrði og tryggja að þeir þyrftu ekki að skerða hana „og nota á sama tíma tækifæri til samtals og samvinnu við lífeyrissjóðina til að finna betra fyrirkomulag, betra fyrir samfélagið, betra fyrir þá sem þurfa á þessu að halda og skynsamlegra fyrir ríkissjóð til lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert