Hvaða erindi á kristni í nútímasamfélagi?

Kristin trú á fullt erindi í nútímasamfélagi að mati Sr. Eiríks Jóhannssonar, prests í Hallgrímskirkju. Hann segir vísindi ekki andstæðu við kristna trú heldur sé líf trúaðs manns einmitt skapandi líf sem leiti að þekkingu.

Þetta kemur fram í Dagmálum þar sem hann var gestur á dögunum.

Hvaða erindi finnst þér kristni eiga við nútímasamfélag?

„Í tvö þúsund ár er þessi boðskapur búinn að vera og alltaf hefur verið eitthvað nútímasamfélag sem hefur verið að taka við þessum boðskap. Þannig það er ekkert öðruvísi núna heldur en það var fyrir 2-300 árum síðan,“ segir Eiríkur.

Eigi sama erindi í dag og í upphafi

Hann segir Biblíuna geyma umfjöllunarefni um manninn, tilfinningar hans og samskipti við annað fólk sem eru tæki til þess að miðla mikilvægum boðskap.

Á þann hátt eigi þessi boðskapur nákvæmlega sama erindi í dag og í upphafi.

„Það sem er verið að tala um þarna er hvernig við eigum samskipti hvert við annað, hvernig við berum virðingu fyrir öðru fólki, hvernig við leitumst við að hjálpa öðrum sem eru í neyð.“

Auðvelt að heimfæra sögurnar

Hann bendir á að grunnhugtök trúarinnar eins og kærleikur séu víða í umræðunni þó að það sé ekki beint í trúarlegu samhengi.

„Á þann hátt eru þessar dæmisögur, sögurnar af Jesú Kristi, svona ákveðinn lykill inn í þessa umræðu frá okkar bæjardyrum séð sem eru kristin. Á þann hátt á þessi sagnasjóður sem er í Biblíunni, hann er svona ákveðið verkfæri og það eru verkfærin sem við notum í predikuninni.

Við tökum þessar gömlu sagnir og við reynum að heimfæra þær og það er í raun ótrúlega auðvelt vegna þess að þetta er í raun - við erum nákvæmlega sömu persónurnar og lærisveinar Jesú. Við erum ekkert fullkomnari þó við eigum síma og getum gúgglað hvað sem er,“ segir hann.

„Líf sem leitar að þekkingu“

Hann segir aðspurður að hann skilji ekki málflutning um að vísindi séu andstæða við kristna trú. Þó eigi þetta mögulega rætur sínar að rekja til þess þegar þróunarkenningin var lögð fram og sumir kirkjunnar menn fóru í vörn.

„Ég myndi segja að líf trúaðs manns væri frekar skapandi líf. Líf sem leitar að þekkingu, en ekki eins og hún sé búin að finna alla þekkingu. Það er alveg útilokað að einhver kristinn maður ætti að játa það. Á þennan hátt er náttúrlega leit mannsins á öllum sviðum fullkomlega í anda kristinnar trúar,“ segir Eiríkur.

Sr. Eiríkur þjónar í Hallgrímskirkju og er gestur í nýjum …
Sr. Eiríkur þjónar í Hallgrímskirkju og er gestur í nýjum þætti Dagmála. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert