Móðir drengsins sem lést vill að einhver axli ábyrgð

Flaggað í hálfa stöng hjá íþróttamiðstöð Hauka eftir banaslysið.
Flaggað í hálfa stöng hjá íþróttamiðstöð Hauka eftir banaslysið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Robina Uz-Zaman, móðir átta ára drengs sem varð fyrir steypubíl á Völlunum í Hafnarfirði á síðasta ári, kveðst ekkert hafa heyrt frá lögreglu þrátt fyrir að rannsókn á banaslysinu hafi lokið í janúar.

Þann 30. október verður ár liðið frá því að drengurinn Ibrahim Shah fór á fótboltaæfingu en skilaði sér aldrei heim þar sem hann varð fyrir steypubíl.

Til að minnast hans mun móðir hans ganga frá Haukahúsinu og að staðnum sem hann lést og kveikja á kerti. Öllum er frjálst að ganga með henni.

Þetta kom fram í viðtali við Robina Uz-Zaman í Kastljósi í kvöld.

Vilja að einhver axli ábyrgð

Ibrahim var á reiðhjóli á bíla­stæði á milli Ásvalla­laug­ar og íþrótta­húss Hauka þegar hann varð fyr­ir steypu­bílnum.

Í kjölfarið var ákveðið að setja upp girðingar og loka fyrir almenna umferð við vinnusvæðið. Robina Uz-Zaman segir að það sé óskiljanlegt að ekkert sé aðhafst fyrr en slysin eigi sér stað.

Ökumaður steypubílsins er með réttarstöðu sakbornings. Hún segir að fjölskyldan vilji fá svör um það hver beri ábyrgð á slysinu og að einhver axli ábyrgð en fjölskyldan kveðst ekkert hafa heyrt um gang málsins.

Ekki fylgst með öryggisráðstöfunum 

Núna vill fjölskyldan koma á breytingum á reglugerðum sem varða vinnubílaumferð á svæðum almennings, ýta undir það að barnasvæði verði bíllaus og hvetja sveitarfélög til að setja öruggar leiðir til og frá skóla auk frístunda.

„Mér finnst mikilvægt að við sem samfélag hugsum hvað við erum að gera og hvernig við gerum hlutina. Sérstaklega í sambandi við byggingarframkvæmdir. Gríðarlegar miklar byggingarframkvæmdir eru mjög víða en það er ekki fylgst með öryggisráðstöfununum. Aðstæður eru óöruggar, hindranir eru á göngustígum, í nágrenni við grunnskólana og önnur svæði þar sem börn hafast við.

Eftir að Ibrahim dó, fór ég að skoða mig um á byggingarlóðum, hvar sem ég ók um. Flestir þessara staða voru ekki afgirtir. Svo að spurningin mín til allra er því: Af hverju þarf eitthvað að koma upp á til að við gerum eitthvað? Af hverju ekki áður? Af hverju, þegar allt liggur ljóst fyrir, komum við ekki í veg fyrir að nokkuð geti hent nokkurn? Ekki bara börn, áhyggjur mínar snúast um börnin eins og er, en þetta getur komið fyrir alla og hvenær sem er,“ sagði hún í Kastljósi.

Ég vil að staðurinn lýsist upp“

Reynst hefur foreldrunum erfitt að fara niður að Ásvöllum en þau ætla samt að ganga þangað þann 30. október. 

„Ég ætla að ganga frá Haukum og að staðnum þar sem hann lést og mig langar að bjóða öllum að koma, sem geta slegist í hóp með mér þann dag með kerti og ég vil að staðurinn lýsist upp.“

Gengið verður af stað frá Haukahúsinu á miðvikudaginn klukkan 18.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert