Píratar vilja verða stærri en Sjálfstæðisflokkur

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Bjarni Bendiktsson, forsætisráðherra og …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Bjarni Bendiktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Samsett mynd/Eggert/Kristinn

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir jákvætt að fylgi flokksins hafi verið stöðugt í mælingum að undanförnu, sérstaklega í ljósi fylgishreyfinga hjá öðrum flokkum. Flokkurinn leggur áherslu á að verða stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í næstu kosningum.

Björn Leví segir að Píratar séu tilbúnir í kosningar hvenær sem er, jafnvel þótt þeim verði flýtt.

„Við erum búin að fara í gegnum svo margar skyndikosningar að það væri nú fáránlegt ef við værum ekki tilbúin í kosningar hvenær sem er,“ segir hann kíminn.

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og formannsframbjóðandi hjá Vinstri grænum, hefur gefið það út að hún vilji flýta kosningum og halda þær í vor, en kjörtímabilinu á að ljúka haustið 2025.

Fylgi Pírata stöðugt

Í könnun Maskínu mælast Píratar með 8,5% fylgi. Flokkurinn hefur verið að mælast með svipað fylgi að undanförnu. Flokkurinn fékk 8,7% í alþingiskosningunum árið 2021.

Eru einhver sérstök mál sem þér finnst skipta máli að flokkurinn leggi áherslu á í næstu kosningum?

„Já, að verða stærri en Sjálfstæðisflokkurinn,“ svarar Björn og hlær.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn mæl­ist með 13,4% fylgi í nýjustu könnun Maskínu. 

„Við erum með hálfgert einræði hérna

Hann segir þó grunnmál Pírata vera heilbrigðismál, geðheilbrigðismál og húsnæðismál. Í þessum málaflokkum skipti máli að koma fram með trúverðuga stefnu.

„En svo erum við með svo margt annað varðandi það hvernig við þurfum að sinna þinginu og ríkisstjórn á annan hátt en búið er að gera,“ segir Björn.

Hann segir Ísland vera með lýðræði sem eigi að tryggja þingbundna stjórn en ekki „ráðherrastjórn“ eins og nú er við lýði að hans mati.

„Við erum með hálfgert einræði hérna þegar allt kemur til alls. Svipað eins og umboðsmaður Alþingis benti á og fleiri töluðu um að það eru komnar þrjár eða tólf ríkisstjórnir – maður veit það eiginlega ekki alveg. Það á ekki að vera þannig og við viljum breyta því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert