Samþykktu verkfallsboðun

Frá Hornafirði.
Frá Hornafirði. mbl.is

Starfsmenn Hornafjarðarbæjar sem eru í AFLi Starfsgreinafélagi samþykktu verkfallsboðun með miklum meirihluta.

Í tilkynningu á vef Afls segir að alls hafi rösk 85% greitt atkvæði með verkfallsboðun, rúmlega 11% sögðu nei og 2,6% skiluðu auðu. Kjörsóknin var 62% en á kjörskrá voru 124 félagsmenn.

Að óbreyttu hefst því verkfall félagsmanna AFLs hjá sveitarfélaginu 2. október kl. 11.00.  Verkfallið er ótímabundið og nær til nánast allra stofnana bæjarins. 

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður stéttarfélagsins, segist mjög ánægð með þessa niðurstöðu og sérstaklega í ljósi þeirra funda sem stjórnendur hafa haldið og upplifun starfsmanna af þeim.

„Félagsmenn okkar hafa ákveðið að standa með sjálfum sér og félaginu sem er að semja um kjörin,“ segir Hjördís á vef Afls.

Viðræður hófust á föstudag en bæjaryfirvöld hafa ekki verið til viðræðu fyrr en eftir að atkvæðagreiðslan fór í gang. Hjördís segist vonast til þess að það takist að loka málinu í vikunni og það sé gott að finna samstöðu í félagsmönnum í þeirri lokahrinu.

Takist samningar ekki hefst verkfall á miðvikudag í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert