Vilja tryggja rétt til sorgarleyfis

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi þar sem lagt er til að foreldrum sem missa maka sinn sé tryggður réttur til sorgarleyfis. 

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að frumvarpinu sé ætlað að styrkja enn frekar stöðu barna og barnafjölskyldna sem verða fyrir áföllum.

Lög um sorgarleyfi tóku gildi þann 1. janúar 2023 og mörkuðu tímamót. Með þeim var foreldrum tryggður lagalegur réttur til að fá leyfi frá störfum í kjölfar barnsmissis í sex mánuði, sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á umræddu tímabili. Þá gátu foreldrar nýtt rétt sinn til sorgarleyfis samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sem og yfir lengra tímabil.

Markmiðið var að tryggja foreldrum á vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum til að styðja við eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum.

Ástæða þykir til að styðja enn frekar við foreldra á vinnumarkaði í kjölfar áfalla og því eru lagðar til ofangreindar lagabreytingar sem tryggja fleirum en áður rétt til sorgarleyfis.

Með frumvarpinu er lagt til að foreldri, í skilningi laga um sorgarleyfi, sem verður fyrir því að hjúskapar- eða sambúðarmaki andast geti átt rétt á sorgarleyfi eða sorgarstyrk í allt að sex mánuði.

Lög um sorgarleyfi voru mikið framfaraskref

„Það skiptir miklu máli að fólk fái svigrúm til að vinna úr sorg sinni. Mikilvægt er auk þess að einstaklingar sem verða fyrir áföllum í lífinu haldi sambandi við vinnumarkaðinn eins og þeir treysta sér til hverju sinni. Lög um sorgarleyfi voru mikið framfaraskref og hafa reynst afar vel,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í tilkynningunni.

Hann segist nú vilja taka skrefið lengra, víkka út sorgarleyfið og láta það einnig ná til foreldra sem missa maka sinn. Með því verði hægt að tryggja þeim svigrúm til sorgarúrvinnslu og andrými til að styðja börn sín við að aðlagast breyttum aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert