Ekki er hægt að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í tengslum við börnin okkar með einstaka fundum eða átaksverkefnum. Mikilvægt er að huga stöðugt að forvörnum, nýta áfram þá þekkingu sem við búum yfir og aðlaga að nýjum verkefnum.
Íslenska forvarnarmódelið er í dag hluti af starfsemi hundruð sveitarfélaga um allan heim, á meðan íslenska þjóðin stendur frammi fyrir nýjum áskorunum sem kalla á við endurmetum og skoðum hvað má gera betur.
Árangur Íslands í að draga úr vímuefnaneyslu ungmenna, er enn á ný orðin ein stærsta áskorunin og nauðsynlegt bretta upp ermar og uppfæra forvarnaráætlanir.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í erindi Margrétar Lilju Guðmundsdóttur, þekkingarstjóra hjá Planet Youth, á norrænni ráðstefnu um velferð barna og ungmenna sem fer nú fram í Hörpu.
Íslenska forvarnarmódelið varð til í kjölfar þess hópur félagsvísindafólks og stefnumótandi einstaklinga og stofnana tóku sig saman á tíunda áratugnum við að kortleggja þá félagslegu þætti sem hafa áhrif á vímuefnanotkun ungmenna og hönnuðu aðgerðir sem hægt væri að beita í forvarnarstarfi. Þá voru Íslendingar nálægt því að eiga Evrópumet í unglingadrykkju. Útkoman varð umrætt módel sem byggir á samstarfi til að mynda foreldra, kennara, félagsmiðstöðva, íþróttafélaga og fleiri sem eru í nærumhverfi barna og ungmenna.
Lögð hefur verið áhersla á heildstæða samfélagsuppbyggingu og framtíðarstefnumótun frekar en skyndalausnir og örþrifaráð á úrslitastundu, sem skilað hefur sér í undraverðum árangri sem tekið hefur verið eftir út um allan heim. Sem dæmi má nefna höfðu 42% unglinga í 10. bekk orðið drukkin á 30 daga tímabili árið 1996 samanborið við 6% unglinga í 10. Bekk árið 2023. Árið 1996 reyktu 23% 10. bekkinga daglega, samanborið við 1% árið 2023.
Margrét segir að þrátt fyrir að dregið hafi úr notkun vímuefna hafi notkun á niktótínvörum og orkudrykkjum stóraukist, því megi tala um nýjar tegundir vímuefna í lífi barnanna okkar.
Áhyggjur af geðheilsu, bæði barna og fullorðinna, hafa aukist, fleiri upplifa einmanaleika og glíma við einkenni kvíða og þunglyndis. Þá ber meira á eitruðum samskiptum og ofbeldishegðun í samfélaginu, sem að hluta til má rekja til samfélagsmiðlanotkunar.
Stóraukið aðgengi að áfengi í gegnum áfengissölu á netinu er einnig staðreynd, að sögn Margrétar, og bendir hún á að niðurstöður rannsókna sýni að áfengisneysla fullorðinna hafi aukist samhliða og sjúkdómar henni tengdir orðið fyrirferðameiri, þó slík þróun hafi enn ekki mælst meðal barna og ungmenna.
Aðspurð hvort þessar nýju áskoranir séu jafn miklar og krefjandi og við stóðum frammi fyrir á tíunda áratugnum segir Margrét alveg mega líta á það þannig. „Það að börnin okkar séu að upplifa andlega vanlíðan er stórt mál að leysa. Við vitum að þau fá ekki nægan svefn og samfélagsmiðlanotkun er of mikil, þannig við þurfum að tækla það.“
Þá hafa breytingar hafa orðið á samfélaginu á síðustu árum sem hafa leitt til áskorana í uppeldi barnanna.
„Við sjáum að það er los á taumhaldi í kringum börnin, sérstaklega eftir Covid. Það hefur orðið rof í samvinnu á milli þessara lykilstoða sem byggja upp líf barnanna okkar; fjölskyldan, skólinn, jafningjahópurinn og frítíminn, sem við þurfum að huga að og endurbyggja.“
Margrét bendir á að liður í því séu fjölmennir foreldrafundir sem haldnir hafa verið víða um land síðustu vikur, þó vandinn verði vissulega ekki leystur með einstaka fundum. „Við leysum þetta ekki með neinum átaksverkefnum, heldur með því að vera alltaf að huga að forvörnum, að þeim þáttum sem eru verndandi. Það er lykilatriði.“
Þegar eitthvað alvarlegt gerist í samfélaginu, líkt og gerst hefur síðustu vikur, segir Margrét það gjarnan verða til þess að farið sé að skoða hvað sé hægt að gera til að bæta úr. „En við þurfum að tryggja að öflugt foreldrastarf sé alltaf við líði. Að við séum stöðugt að huga að lýðheilsu,“ útskýrir hún.
„Við þurfum líka að horfast í augu við að fjárhagsstaða heimilanna, ofbeldi, stríð í heiminum og allt sem við erum að heyra af dags daglega, hefur áhrif á okkur fullorðna fólkið, sem gerir það að verkum að við þurfum líka að huga að okkar líðan. Við erum ekki vel í stakk búin til að huga að vellíðan barnanna okkar ef við erum sjálf úttauguð og korter í kulnun.“
Mikilvægt sé að smána ekki foreldra. „Við erum ekki að saka foreldra um neitt heldur er þetta samfélagsverkefni,“ segir Margrét. Enda gangi íslensk forvarnarnálgun út á samvinnu í þorpinu og að allir tali saman til að koma í veg fyrir að börnin leiðist út í áhættuhegðun.
„Ef þú ert að standa þig vel í fyrsta stigs forvörnum þá tekur enginn eftir því. Þá koma jafnvel upp hugmyndir um að börnin okkar séu á einhvern hátt öðruvísi, þau eru orðin svo góð, þau drekka ekki lengur heldur hanga bara í símanum. En þau eru ekkert öðruvísi en við vorum. Það sem við náðum að breyta var umhverfi barnanna okkar og ef umhverfið riðlast þá fáum við neikvæða útkomu.“
Hún segir lífið alltaf að færa okkur nýjar áskoranir en hægt sé að nota sömu tæki og tól og áður til að tækla þær. „Þegar við blásum til fundanna þá vitum við af hverju við erum að gera það. Þegar einhver segir að við þurfum að verja tíma með börnunum okkar, sýna þeim umhyggju og hlýju, tala við þau um lífið og tilveruna, þekkja vini þeirra og foreldrana, þá er það af því við vitum að það skilar árangri. Vegna þess að við höfum tekist á við áskoranir og leyst meðal annars með þeim hætti. Það er kosturinn og styrkurinn við okkar samfélag. Við erum með þorpið og leiðirnar til að virkja, við þurfum bara að passa að við séum að vinna í því jafnt og þétt.“
Margrét segir börnin kalla eftir því að foreldrarnir séu minna í símanum, að við séum betri við hvert annað og tölum meira saman.
„Við erum oftast að reyna að gera okkar besta. Núna hefur það bara komið í ljós að við þurfum að gera ennþá betur. Við þurfum hreinlega að setjast niður og hugsa okkar gang. Skoða hvernig við verjum tíma með börnunum okkar, og hvort við séum að vinna of mikið. Ég finn bara þegar ég er að tala við foreldra núna að ég er að tala beint inn í hjarta þeirra.“
Margrét alveg sannfærð um að hægt sé að ná jafngóðum árangri með þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir núna og þeim sem við stóðum frammi fyrir fyrir 20 til 30 árum. En mikilvægt sé að leiðbeina nýjum foreldrum og styðja við þá sem þess þurfa.
„Við leysum þetta ekki með því að þrífa til í kringum börnin okkar og þá á ég við að við leysum þetta ekki með að henda út úr vinahópnum, sortera og flokka hvað er æskilegur vinahópur og hvað ekki. Við þurfum að setja fókus á að börnin okkar hafi stað til að tilheyra, þau séu partur af stærra samfélagi sem sýnir þeim kærleik. En ég væri ekki í þessari vinnu ef ég tryði því ekki á hverjum einasta degi þegar ég vakna á morgnanna að við séum að ná árangri.“