Örmagna móðir kallar eftir breytingum

Stuðlar skiptast í tvær deildir; meðferðardeild og lokaða deild (almennt …
Stuðlar skiptast í tvær deildir; meðferðardeild og lokaða deild (almennt kölluð neyðarvistun). Stuðlum er ætlað að þjóna börnum á aldrinum 12 – 18 ára. mbl.is/Kristinn Magnússon

Móðir þrettán ára gamals drengs sem glímir við fíknivanda og ADHD segir óskiljanlegt að ekki séu aldursskipt úrræði í boði hjá Stuðlum. Sonur hennar hefur verið neyðarvistaður á stofnuninni fjórum sinnum og vingast þar við eldri stráka sem eru verr staddir.

Vísir greinir frá.

Þar segir að sonur hennar hafi fundið sig í íþróttum er hann var yngri og meira að segja komist í landslið.

Lýsir móðirin drengnum sínum sem ljúflingi með stórt hjarta, hæfileikaríkum og listrænum. Segir hún að nokkur atvik hafi komið upp með stuttu millibili í lífi hans sem varð til þess að halla fór undan fæti hjá honum.

Hafi hann t.a.m. þurft að taka sér frí frá íþrótt sinni eftir að hann fór að sýna merki ofþjálfunar. Auk þess hafi honum verið kippt úr liðinu rétt fyrir mót og upplifað mikla höfnunartilfinningu og hætti í kjölfarið að mæta á æfingar.

Komið að honum meðvitundarlausum tvisvar

Í skólanum lenti drengurinn einnig í slæmum félagsskap.

Fór þá að halla mikið undan fæti og fór strákurinn að sýna áhættuhegðun, að sögn móður hans. Byrjaði hann þá að fikta við áfengi og fíkniefni.

Segist hún hafa komið að honum tvisvar sinnum meðvitundarlausum. Í seinna skiptið var drengurinn meðvitundarlaus í sólarhring á spítala. 

Ætti frekar að vera á lokaðri deild á BUGL

Þá hafi í fjögur skipti þurft að neyðarvista son hennar á Stuðlum.

Kveðst móðir hans ósátt við að þrettán ára sonur hennar sé settur í þá viðkvæmu stöðu að vera vistaður með eldri einstaklingum sem séu í gæsluvarðhaldi fyrir alvarleg brot.

Segir hún að barnið sitt ætti mun frekar heima inni á lokaðri deild á BUGL, en þar gæti hann stundað skóla og hitt viðeigandi fagaðila. Hins vegar sé neyðarvistun á Stuðlum það eina sem standi til boða sökum aldurs hans.

Þá setur móðirin einnig spurningamerki við að sonur hennar þurfi að bíða í einhverja mánuði eftir þjónustu.

Segist móðirin vera örmagna og geta lítið sem ekkert sofið af ótta við að drengurinn fari út og verði sér að voða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert