Tekur of langan tíma: Bjarni hvattur til úrbóta

Forsætisráðherra er hvattur til að stuðla að úrbótum þar sem …
Forsætisráðherra er hvattur til að stuðla að úrbótum þar sem málsmferðartíminn tekur of langan tíma. Samsett mynd/Colourbox/mbl.is/Ólafur Árdal

Ljóst er að úrskurðarnefnd um upplýsingamál kveður úrskurði sína að jafnaði ekki upp svo fljótt sem verða má og oft ekki heldur innan lögbundins 150 daga hámarksviðmiðs.

Í ljósi þess að þegar hefur verið gripið til aðgerða til að stytta málsmeðferðartíma og fyrirætlana um að bæta enn frekar úr, hefur umboðsmaður ákveðið að ljúka athugun sinni en væntir þess um leið að forsætisráðherra leggi sitt lóð á vogarskálarnar til úrbóta, eftir því sem hann telur nánari greiningu á vanda nefndarinnar kalla á.

Þetta kemur fram á vef umboðsmanns Alþingis

Óhóflegar tafir geti leitt til þess að upplýsingar verði þýðingarlausar

„[Umboðsmaður vekur] athygli á því að markmið upplýsingalaga eru samofin tjáningar- og fjölmiðlafrelsi og hljóta að skoðast sem ein af forsendum þess aðhalds sem eðlilegt er að stjórnvöld sæti í lýðræðislegu samfélagi. Í því tilliti bendi ég á að óhóflegar tafir við meðferð mála hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kunna í ýmsum tilvikum að leiða til þess að þær upplýsingar sem óskað er aðgangs að verði meira eða minna þýðingarlausar. Hér hef ég ekki síst í huga aðgang fjölmiðla að upplýsingum í þágu umfjöllunar um opinber málefni. Ég tel því að viðhlítandi málshraði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sé mikilvæg forsenda þess að sú löggjöf sem Alþingi hefur sett um þetta efni nái tilgangi sínum,“ segir í bréfi umboðsmanns. 

Þá kemur fram, að af svörum nefndarinnar til umboðsmanns hafi mátt ráða að tafirnar stafi fyrst og fremst af atvikum sem varði störf og aðstæður nefndarinnar sjálfrar og væru þannig á ábyrgð stjórnvalda.

Ekki réttlætanlegar tafir

Tekið er fram, að mismunandi sé hversu mikillar ritaraaðstoðar nefndin njóti frá starfsfólki forsætisráðuneytisins og afköstin séu ekki nægjanleg til að halda afgreiðslutíma mála í nógu góðu horfi auk fleiri atriða. Fyrir haustið verði verklag hjá nefndinni tekið til skoðunar.

„Umboðsmaður taldi ekki unnt að líta svo á að tafirnar væru réttlætanlegar en vegna fyrirheita um betrumbætur, og þess að þegar hefði verið gripið til nokkurra ráðstafana, taldi hann ekki ástæðu til að halda athuguninni til streitu en tók fram að hann vænti aðkomu forsætisráðherra að úrbótum eftir því sem þyrfti,“ segir á vef umboðsmanns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert