Barst tilkynning um slagsmál við Austurvöll

Lögreglan fann engan hníf.
Lögreglan fann engan hníf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír voru handteknir eftir að tilkynning barst lögreglu um slagsmál við Austurvöll. Var maður sagður hóta öðrum manni með hníf. Lögregla handtók mennina og flutti þá á lögreglustöð.

Enginn hnífur fannst og var í raun ekki um átök að ræða. Mönnunum þremur var síðan sleppt úr haldi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag.

Ósáttur við afskipti lögreglu

Þá segir jafnframt að lögreglan hafði afskipti af ökumanni fyrir of hraðan akstur. Ökumaðurinn varð mjög ósáttur við afskiptin sem leiddi til handtöku og var hann fluttur á lögreglustöð.

Málið var afgreitt á lögreglustöð og ökumaður frjáls ferða sinna að því loknu.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um mann að ganga á milli og reyna að komast inn í bifreiðar.

Kom styggð að honum þegar hann sá að hringt var á lögreglu. Náði hann að koma sér undan þegar lögregla kom á vettvang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert