Dapurleg framkoma í nótt: Sumir reyndu oftar en þrisvar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sagt framkomuna í nótt dapurlega.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sagt framkomuna í nótt dapurlega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Einhverjir komu þarna oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og oftar en þrisvar til að reyna að fá sínu framgengt,“ segir Hjördís Sigurbjartsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá dapurlegri framkomu einstaklinga í nótt vegna þess að loka þurfti fyrir umferð á vettvangi banaslyss sem varð á Sæbraut við Vogabyggð.

Hjördís segir að vegfarendur, bæði gangandi og akandi, hafi verið ósáttir við að komast ekki ferða sinna og þurft að fara aðra leið.

Ekki í fyrsta skipti

„Þetta sneri bara að því að fólk var ósátt við að þurfa að velja aðra leið þegar það komst ekki þá leið sem það ætlaði sér.“

Er þetta eitthvað sem lögregla lendir mikið í þegar svona aðstæður koma upp?

„Já, því miður er þetta ansi algengt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert