Ferðirnar hefðu getað verið fleiri

Þegar Morgunblaðið hafði samband við Dag var hann staddur í …
Þegar Morgunblaðið hafði samband við Dag var hann staddur í Harvard í Bandaríkjunum. mbl.is/Árni Sæberg

„Já eða fleiri. Alþjóðasamstarf borga hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum í takt við aukið mikilvægi þeirra til að takast á við brýnustu úrlausnarefni samtímans,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og fv. borgarstjóri, spurður hvort ferðir hans erlendis hefðu ekki getað verið færri.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í vikunni hefur hann farið 26 sinnum til útlanda í ýmsum opinberum erindagjörðum á yfirstandandi kjörtímabili og samanlagt dvalið erlendis í þrjá mánuði á tímabilinu.

Staddur í Harvard

Þegar Morgunblaðið hafði samband við Dag var hann staddur í Harvard í Bandaríkjunum á ráðstefnu á vegum Bloomberg Centre for Cities, og hélt þar m.a. fyrirlestur. Hann tók ekki símann en óskaði eftir skriflegum spurningum. Dagur segist hafa kynnt borgarráði árið 2018 að hann hygðist stunda nám á vegum Harvard og Bloomberg, samhliða störfum sínum sem borgarstjóri.

„Ég fór í gegnum eins árs borgarstjóranám á vegum Harvard og Bloomberg árið 2018. Það var einstakt tækifæri að vera hluti af einum af fyrstu hópum borgarstjóra sem fóru í gegnum það. Það tengslanet sem byggst hefur upp á síðustu árum hefur nýst Reykjavík gríðarlega vel,“ segir Dagur í svari við spurningu um ferð hans nú.

Segir hann að Bloomberg hafi greitt fyrir árlega þátttöku hans á ráðstefnunni CityLab auk þess að bjóða völdum hópi borgarstjóra á síðasta loftslagsfund Sameinuðu þjóðanna.

„Síðustu daga hef ég verið í Harvard í boði Bloomberg Centre for Cities þar sem ég held meðal annars fyrirlestur fyrir þá sem að þessu borgarfræðasetri koma. Þessi ferð er á minn eigin kostnað.“

Þú ferð á eigin kostnað, en í boði Bloomberg Centre for Cities. Hvernig má skilja það?

„Ég er boðinn hingað sem fyrrverandi borgarstjóri og sitjandi borgarfulltrúi af Bloomberg Centre for Cities sem er hluti af Harvard Kennedy School. Í því felst mikil viðurkenning og tækifæri fyrir Reykjavík sem ég legg mig fram um að nýta. Mér er séð fyrir aðstöðu en greiddi sjálfur fargjald, uppihald og gistingu.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert