Gísli skákaði breska dómskerfinu

Gísli Guðjónsson, prófessor emeritus í sálfræði við King's College-háskólann í …
Gísli Guðjónsson, prófessor emeritus í sálfræði við King's College-háskólann í London, hefur getið sér orðstír um allan heim sem sérfræðingur í fölskum játningum sakborninga og komið að stórum umtöluðum sakamálum. Sjálfur hefur hann ekki búið við það útsýni sem myndin sýnir en Kristinn Ingvarsson, fyrrverandi ljósmyndari Morgunblaðsins, tók myndina af kunnu listfengi sínu gegnum stólbak á heimili prófessorsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Árið 1991 var ég beðinn um að leggja gáfnapróf fyrir Oliver Campbell, við vorum tveir sem komum að þessu, geðlæknir og ég, og minn hluti var dálítið afmarkaður,“ segir Gísli Guðjónsson, prófessor emeritus í réttarsálfræði við King's College-háskólann í London og sérfræðingur í fölskum játningum, í viðtali við Morgunblaðið um rúmlega þriggja áratuga gamalt mál sem umturnaði lífi saklauss manns.

Það var í ofanverðan júlímánuð 1990 sem tveir ungir blökkumenn ruddust inn í matvöruverslun í Hackney í London og létu ófriðlega. Með skotvopn á lofti kröfðu þeir kaupmanninn, Baldev Hoondle, um það fé sem hann hafði handbært. Til átaka kom með kaupmanni og aðkomumönnum og lyktaði með því að annar ræningjanna skaut Hoondle til bana af skömmu færi.

Á flótta sínum missti annar ódæðismaðurinn derhúfu merkta British Knights og hófst í kjölfarið lögreglurannsókn sem gekk hægt. Það var ekki fyrr en árið eftir, 1991, sem lögregla taldi sig hafa fundið ræningjann sem skaut – Oliver Campbell frá Stratford. Campbell var ungur, eins og þeir sem ránið frömdu, og hörundslitur hans hinn sami. Óyggjandi sönnunargagn taldi lögregla vera að hann hafði skömmu fyrir ránið keypt sams konar derhúfu og fannst á vettvangi.

Ekkert vitni benti á Campbell

Nokkur vitni voru að ráninu, þar á meðal sonur fórnarlambsins sem horfði beint í andlit skotmannsins inni í versluninni. Hann bar ekki kennsl á Campbell í neinni þriggja sakbendinga. Ekkert annað vitni benti heldur á hann. Vitnin voru á einu máli um að drápsmaðurinn hefði verið eldri, Campbell var nítján ára. Þau sammæltust einnig um að sakamaðurinn hefði verið undir 180 sentimetra hár, Campbell er tæplega 190.

Lögreglan einsetti sér að sakfella Oliver Campbell, hún var að …
Lögreglan einsetti sér að sakfella Oliver Campbell, hún var að falla á tíma í manndrápsrannsókn og lýðurinn heimtaði brauð og leika, sekan mann fyrir dóm og refsingu. Ljósmynd/Lögreglan í London

„Þegar ég skoðaði yfirheyrslurnar leist mér ekki á, mér fannst eins og hann hefði verið þvingaður,“ segir Gísli, en Campbell varð fyrir heilaskaða í bernsku og mældist greindarvísitala hans 73 stig. Átti hann því í vök að verjast gegn harðsnúnum yfirheyrslumönnum lögreglu sem þegar höfðu ákveðið sekt hans. Manndrápsrannsókn hafði dregist úr hófi fram, blökkumaður sem hafði átt eins derhúfu hlaut að vera kaldrifjaður drápsmaður. Lögreglan útilokaði einfaldlega aðra möguleika.

„Ég skoðaði þessar fjórtán yfirheyrslur en það var ekkert mark tekið á því. Það vildi enginn heyra að lögreglan hefði gert eitthvað rangt,“ heldur prófessorinn áfram en Gísli hefur getið sér orðstír um allan heim fyrir glöggskyggni sína um mat á framburði sakborninga sem vitna og hitti þar á meðal naglann á höfuðið í tveimur annáluðum málum í Noregi, máli hinnar ungu Birgittu Tengs og Baneheia-málinu í Kristiansand. Í hvoru tveggja hafði lögregla fundið sinn sakborning – annar sat saklaus inni í 20 ár.

Þrjátíu árum síðar, 2021, var haft samband við Gísla og hann beðinn að líta á mál Campbells á ný. Endurupptökunefnd hafði þá úrskurðað að málið skyldi tekið til endurskoðunar. Campbell var þá frjáls maður – hafði afplánað ellefu ár fyrir að skjóta kaupmanninn í London til bana. Hann var þó engan veginn frjáls undan því oki að hafa setið inni fyrir það sem var þriðjungur ævi hans þegar hann losnaði út.

„Ég var beðinn að líta á málið aftur í ljósi vísindanna núna og skilaði rúmlega fjörutíu blaðsíðna skýrslu sem meðal annars var byggð á þeirri aðferðafræði sem þróaðist í kjölfar Guðmundar- og Geirfinnsmálanna. Málið fór svo fyrir rétt núna 29. febrúar þar sem ég gaf munnlega skýrslu sem tók um tvo tíma. Vísindin hafa þróast svo mikið á þessum þrjátíu árum, þau voru ekki komin langt árið 1991 og maður getur aldrei farið fram fyrir vísindin,“ segir Gísli af sínum þætti í endurupptökumálinu.

Hvað gerðist eftir tíundu yfirheyrsluna?

Hann segir fjölda rannsókna hafa verið gerðan á framburði fólks sem gefið hefur falskar játningar. „Ég hef verið brautryðjandi í því að vinna að þessum málum og reyna að bæta vísindin, skoða hvað það er sem gerist við yfirheyrslur þegar menn játa á sig eitthvað sem þeir hafa ekki gert. Þarna þarf að taka marga þætti til greina og skoða bakgrunn manna. Oliver Campbell hafði orðið fyrir heilaskaða og eins þarf að skoða þætti á borð við þann að ekkert DNA úr honum fannst í húfunni,“ útskýrir sálfræðingurinn.

„Ég hef verið brautryðjandi í því að vinna að þessum …
„Ég hef verið brautryðjandi í því að vinna að þessum málum og reyna að bæta vísindin, skoða hvað það er sem gerist við yfirheyrslur þegar menn játa á sig eitthvað sem þeir hafa ekki gert.“ mbl.is/Árni Sæberg

Eftir tíundu yfirheyrslu yfir Campbell árið 1991 urðu vatnaskil í málinu. „Þá fer lögfræðingurinn hans heim og Campbell ætlar að hvíla sig eftir yfirheyrsluna. Lögreglan vill þá fá hann í aðra yfirheyrslu. Fósturmóðir hans er þá á staðnum og hann vill bara fara heim. Hann sá ekkert annað en að hann yrði áfram í varðhaldi nema hann játaði,“ segir Gísli.

Hann segir það algengt hjá fólki sem glími við andlegar áskoranir að það telji sér trú um að ef það játi fái það bara að fara heim. „Þetta var hans hugsunarháttur og þetta hef ég séð oft áður. Hann var stressaður og undir miklu álagi og hafði takmarkaða aðstoð. Aðferð lögreglu var að lesa viðbrögð hans sífellt og benda á hvað hún teldi að hann hefði gert. Hann var leiddur áfram en rétturinn vildi ekkert setja út á lögregluna á sínum tíma,“ segir sálfræðingurinn.

„Kerfið ver alltaf sjálft sig“

Við endurupptökuna hafi dómurinn hins vegar ekki getað sett sig upp á móti fræðunum eins og þau höfðu þróast. „Þannig að þetta er mikill viðburður fyrir vísindin, þótt þeir hafi reynt að hanka mig á einhverju gátu þeir ekki hankað vísindin sem þarna stóðu fyrir sínu. Þarna er stórum áfanga náð, í kerfinu er alltaf stífni, kerfið ver alltaf sjálft sig og oft er þetta mikil barátta, maður má aldrei gefast upp,“ segir prófessorinn.

„Það sem er betra nú til dags við yfirheyrslur er að allt er tekið upp, maður veit nákvæmlega hvað er sagt og gert við yfirheyrslur. Það eina sem við vitum ekki er hvað gerðist á milli yfirheyrslna númer tíu og ellefu hjá Campbell árið 1991,“ rifjar Gísli upp af löngu horfnum tíma og dimmum skugga réttarkerfis sem lagði ofurkapp á að færa lýðnum brauð og leika – hinn seka varð að finna hvað sem það kostaði. Jafnvel þótt hann væri ekki sekur.

„Campbell var búinn að neita öllu með lögfræðinginn viðstaddan. Svo gerðist eitthvað, og það er ekki skráð hvað það var. Allt í einu vill hann játa. Hann hugsaði bara um hvað hann gæti gert til að komast heim, hann vildi bara komast heim. Hann hugsaði ekki lengra, bara um hvað hann gæti gert til að losna undan þessu,“ segir Gísli en mál Campbells hefur verið til umfjöllunar í stærstu heimsmiðlum síðustu daga – manns sem breskt réttarkerfi rændi stórum hluta ævinnar af.

Hvernig finnst þér vinnubrögð lögreglu við yfirheyrslur í sakamálum, eins og þú þekkir til, hafa þróast þessa áratugi, til dæmis frá Guðmundar- og Geirfinnsmálum á sínum tíma?

„Þetta er náttúrulega gjörbreytt,“ svarar prófessorinn, „það var stór áfangi að taka á Guðmundar- og Geirfinnsmálum þegar þar kom að, það var mikil harka, og ég er stoltur af að vera Íslendingur,“ segir Gísli og á við endanleg málalok langvinnustu dómsmála Íslandssögunnar sem voru sýkna allra hlutaðeigandi. Aldrei fundust þeir Guðmundur og Geirfinnur.

Hörgull á sérfræðingum í heiminum

„Í Bretlandi hafa allar þessar rannsóknir sem hafa verið gerðar og kennslan sem hefur farið fram breytt aðferðum lögreglu, maður sér ekki mikið nú til dags í sambandi við léleg vinnubrögð hjá lögreglu, ég fæ ekki eins mikið af málum. Ég er náttúrulega kominn á eftirlaun og ég er ekkert að sækjast eftir málum en þau bara koma til mín og það er erfitt að hafna því þegar maður var kannski viðriðinn málið árið 1991. Vandræðin eru að það vantar fólk í heiminum, sérfræðinga sem hafa reynslu og geta séð málin í samhengi, til þess þarf mikla reynslu. Maður verður alltaf að líta á málið í heild,“ segir Gísli og áhugi prófessorsins á fræðunum lýsir af orðum hans.

Blaðamannafundur innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálin í mars …
Blaðamannafundur innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálin í mars 2013. Starfshópur sem fór yfir rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálum sagði hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður allra þeirra, sem hlutu dóm í málinu, hefði verið óáreiðanlegur eða falskur. mbl.is/Rósa Braga

Hann segir ekki hlaupið að því að meta sannleiksgildi framburðar og ítrekar mikilvægi þess að líta á heildarmyndina í stað þess að einblína eingöngu á einstaka þætti. „Ég fæ töluvert af málum til mín og ég reyni að hafna öllu sem ég get,“ segir prófessorinn kankvís, „en það er stundum sem ég get ekki hugsað mér hver annar gæti leyst mál ef þau eru mjög flókin,“ heldur hann áfram og bendir aftur á að hér sé hörgull á sérfræðingum í heiminum, menntuðum sálfræðingum eða geðlæknum með þessa sérgrein – falskar játningar í refsimálum.

Hvernig kom það til að leið þín lá út í svo afmarkaða sérgrein fræðanna á sínum tíma?

„Ég vann í lögreglunni, ég var sumarlögreglumaður, og það var í raun sú reynsla sem ég fékk þar sem kom mér út í þetta,“ svarar Gísli og rifjar upp löngu liðinn tíma þegar hann var sumarmaður í lögreglunni í byrjun áttunda áratugarins, sumarið 1973. „Ég er vísindamaður í eðli mínu og ég var alltaf að tengja vísindin við lögreglustarfið,“ segir prófessorinn frá sem á þessum tíma hafði nýhafið nám í sálfræði við Brunel-háskólann í Middelsex í London.

Framkvæmdi rannsókn á Breiðuvík

„Ég var líka í lögreglunni 1975 og '76 og kom að Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, ég hitti fimm af þessum sex sem voru sakborningar þar,“ heldur Gísli áfram og gamalt – og þó enn nýtt að vissu leyti – dómsmál kemur upp í hugann, Síðumúlafangelsið drungalega, styttan „Leirfinnur“ og rannsóknaraðferðir sem aldrei hefðu liðist nú til dags, ef til vill myrkasti dalur sem íslenskt réttarkerfi hefur farið um síðan meintum nornum var drekkt og galdramenn brenndir á svörtustu miðöldum að undirlagi séra Páls Björnssonar, prests í Selárdal, og fleiri valdsins manna.

Gísli við útskrift úr doktorsnámi í Bretlandi árið 1981. Doktorsverkefni …
Gísli við útskrift úr doktorsnámi í Bretlandi árið 1981. Doktorsverkefni hans fjallaði um lygamælingar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var þarna á þessum tíma og fékk þá áhuga á yfirheyrsluaðferðum og morðmálum. Það var ómetanleg reynsla sem ég fékk hjá lögreglunni og þetta voru góðir tímar að því leytinu til að ég lærði svo mikið,“ rifjar sálfræðingurinn upp af lærdómsríkum tíma í lífi hans fyrir hálfri öld. Nokkuð sem hefur nýst honum til að verða einn fremsti sérfræðingur heims í fölskum játningum – slíkt tínir maður ekki upp af götunni.

Gísli er bróðir Guðmundar Guðjónssonar fyrrverandi yfirlögregluþjóns sem hóf störf í lögreglunni eftir að Gísli hætti í götulögreglunni árið 1973 en Gísli var rannsóknarlögreglumaður árin 1975 og '76. „Hann átti sinn frama þar,“ segir hann um bróður sinn, „ég hafði áhuga á að ferðast og lenda í ævintýrum, en hann hafði engan áhuga á því,“ segir Gísli og hlær góðlátlega.

Árið 1974 starfaði Gísli um sex mánaða skeið hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur og framkvæmdi þá rannsókn á Breiðuvík, hinu illræmda uppeldisheimili fyrir drengi sem þar var stofnað árið 1953 og varð áratugum síðar tilefni hárra bótagreiðslna íslenska ríkisins til fyrrverandi vistmanna sem þar höfðu sætt harðræði og sumir hverjir verið skaðaðir fyrir lífstíð.

„Allir voru að tala um hvað þetta væri góð stofnun en ég spurði mig „er þetta svona góð stofnun?“, þá kom vísindamaðurinn upp í mér. Svo rannsakaði ég það og þá kom það í ljós að þetta heimili var ekki eins gott og fólk taldi,“ segir Gísli frá.

Skýrsla hans um málið var stimpluð trúnaðarmál og einfaldlega stungið ofan í skúffu á sínum tíma – árið 1974. „Svo fundu einhverjir blaðamenn hana þrjátíu árum síðar og allir vita hvað gerðist í framhaldinu,“ segir hann.

Ætlaði alltaf að koma heim

Sem fyrr segir hóf Gísli háskólanám sitt í sálfræði við Brunel en meistaranám þreytti hann við Surrey-háskólann í Guildford og lauk þaðan meistara- og doktorsprófi, því síðara 1981, en embættisprófi í klínískri sálfræði hafði hann lokið árið 1977 og starfaði samhliða doktorsnáminu á Epsom District Hospital, frá 1977 til 1979, og síðar Institute of Psychiatry við London University, frá 1980 til 2011.

„Það var mjög spennandi, þetta var svo fræg stofnun og þar störfuðu margir góðir vísindamenn,“ segir Gísli af Institute of Psychiatry og játar í framhaldinu að hann hafi aldrei ætlað sér að ílengjast í breska heimsveldinu þar sem hann býr þó enn, kominn hátt á áttræðisaldur.

Gísli heldur námskeið fyrir lögreglumenn í Reykjavík í ágúst 1997 …
Gísli heldur námskeið fyrir lögreglumenn í Reykjavík í ágúst 1997 um fræði sín sem ótal nemendur hans við King's College í London hafa numið við fótskör hans. Hann segir fleiri sérfræðinga þörf á vettvangi falskra játninga. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Ég ætlaði alltaf að fara heim með mína þekkingu, ég vildi bara mennta mig og fræðast, það var líka gott að vera heima og geta unnið í lögreglunni til að afla fjár fyrir náminu, þetta voru mjög spennandi ár og þetta gerði mig allt að þeim vísindamanni sem ég er í dag,“ segir Gísli sem fjallaði um lygamælingar í doktorsritgerð sinni og raunar er starfsferillinn langt í frá tæmandi talinn þrátt fyrir allt sem komið hefur til tals, viti menn:

„Svo var ég nú sendill á Mogganum þegar ég var tólf ára, Mogginn er í mínu hjarta. Það kom einu sinni mynd af mér í Mogganum sem hann Sveinn Þormóðsson ljósmyndari tók og það var mjög spennandi tími líka,“ segir Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur að lokum, fræðimaður sem hefur flett ofan af fjölda falskra játninga um áratuga skeið og það gerði hann einnig í því máli sem hér var til umfjöllunar, máli Olivers Campbells sem hefði ekki eytt ellefu dýrmætum árum sem ungur maður bak við lás og slá hefðu vísindin verið nægjanlega þróuð árið 1991.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert