Bláa lónið framlengir lokun fram á föstudag

Hér má sjá mynd sem ljósmyndarinn Hörður Kristleifsson tók fyrr …
Hér má sjá mynd sem ljósmyndarinn Hörður Kristleifsson tók fyrr í dag. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Bláa lónið hefur ákveðið að framlengja lokun til 29. nóvember, en upphaflega átti að opna aftur á morgun. Fram að opnun er verið að skoða ýmsa möguleika í stöðunni varðandi þar hvar sé hægt að koma upp bílastæði, en hraun rann á dögunum yfir meginbílastæði Bláa lónsins.

Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, í samtali við mbl.is.

„Í gegnum alla þessa atburði þá höfum við lokað alltaf nokkra daga fram í tímann vegna þess að við þurfum alltaf að geta séð í gegnum atburðarásina á hverjum tíma. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera núna, vegna þess að við verðum að upplýsa gestina sem eiga bókað hjá okkur eins langt fram í tímann og við treystum okkur hverju sinni,“ segir Helga.

Getur tekið breytingum

Hún segir að Bláa lónið geti ekki sagt: „Við erum lokuð þangað til við erum opnuð.“ Fyrirtækið verði að veita gestum einhvern fyrirsjáanleika.

Hún segir að tímasetningar um lokun séu ekki meitlaðar í stein þar sem aðstæður séu metnar frá degi til dags.

Nú stendur til að hafa Bláa lónið lokað fram á föstudag en nýjar dagsetningar verða gefnar upp um leið ef eitthvað breytist.

Verið að skoða nokkra möguleika

Á föstudag fóru um 350 stæði und­ir hraun auk rútu­stæða. Hvað varðar ný bílastæði segir Helga að það séu nokkrir möguleikar í stöðunni sem verið er að skoða og útfæra. Hún segir að það verði unnið í þessu næstu daga.

Helga segir að fyrirtækið fylgist náið með þróun gossins.

„Það er magnað að sjá hvernig varnargarðarnir eru búnir að virka núna og hvernig viðbragðsaðilar eru að fylgjast með þróuninni og bregðast við með fumlausum og faglegum hætti,“ segir hún.

Ljósmynd sem Eggert tók daginn sem bílastæðin fóru undir hraun.
Ljósmynd sem Eggert tók daginn sem bílastæðin fóru undir hraun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka