Dóra Ósk Halldórsdóttir
Nú er vika þar til landsmenn ganga til alþingiskosninga 30. nóvember næstkomandi. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur skoðaði þrjár langtímaveðurspár á Bliku í gær fyrir kosningadaginn.
Spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar, sem Veðurstofan styðst mest við, gerir ráð fyrir svölu lofti fyrir landinu, vægu frosti norðan til, en hita um eða yfir frostmarki suðvestan til á landinu. Þar er gert ráð fyrir lægð milli Íslands og Færeyja, hríðarveðri á Austfjörðum og hugsanlega einnig á Norðausturlandi. Þá geti orðið hvasst á Vestfjörðum og jafnvel éljagangur og skafrenningur, á meðan úrkomulaust verði sunnan- og vestanlands.
Þá er langtímaspá bandarísku veðurstofunnar, GFS, sem Blika og Belgingur styðjast við, þannig að skörpum skilum er spáð yfir landinu með köldu veðri fyrir norðan, en mildara loft úr suðri. Hvassri austanátt og hríðarveðri er spáð um norðan- og austanvert landið, en sunnanátt og vægri leysingu og rigningu sunnanlands.
Í hermilíkani Google er spáin svipuð spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar. Einar bætir við að af 50 safnspám fyrir kjördag séu 50% á svipaðri línu og reiknimiðstöðin, 30% í líkingu við langtímaspá GFS, en 20% spái köldu en meinhægu veðri á landinu.