Vigdísi frestað fram á nýtt ár

Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverki Vigdísar Finnbogadóttur í nýjum þáttum …
Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverki Vigdísar Finnbogadóttur í nýjum þáttum um ævi hennar og leiðina að forsetaembættinu árið 1980. Skjáskot/RÚV

„Það var ekki svigrúm á rekstrarárinu fyrir því að hefja sýningar á svo stórri þáttaröð,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV.

Athygli vekur að Ríkissjónvarpið hyggst frumsýna nýja þáttaröð um Vigdísi Finnbogadóttur á nýársdag. Algengt hefur verið að landsmenn fái að sjá fyrsta þátt stórra þáttaraða á öðrum degi jóla en fjárhagsstaða RÚV kemur í veg fyrir það að þessu sinni. Þetta er annað árið í röð þar sem fresta þarf stórum frumsýningum vegna fjárskorts.

„Þetta er búið að vera stórt ár, tvennar kosningar og gos, Ólympíuleikar og EM í fótbolta. Við erum auk þess þegar búin að sýna tvær stórar seríur á árinu, Húsó og Ráðherrann,“ segir Skarphéðinn ennfremur þegar hann er spurður út í ástæður þessa.

Dagskrárstjórinn bendir á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem fresta þurfi frumsýningum. Nærtækt dæmi sé frumsýning á Húsó sem plönuð var í lok síðasta árs en var færð til nýársdags.

„Við horfum á jóla- og hátíðardagskrá sem heild og stundum þurfum við að grípa til slíkra ráða þegar svigrúmið er ekki meira,“ segir Skarphéðinn sem segir að jóladagskráin verði samt sem áður frábær. Á jóladag verði kvikmyndin Napóleónsskjölin sýnd og á annan dag jóla heiðurstónleikar Magnúsar Eiríkssonar.

Enn er reynt að vinna bug á rekstrarvanda RÚV í ár. Á stjórnarfundi stofnunarinnar 30. október síðastliðinn kom fram að afkoma fyrstu mánuði ársins væri 145 milljónum króna lakari en uppfærð áætlun gerði ráð fyrir. Nú er gert ráð fyrir að taprekstur ársins verði í kringum 150-200 milljónir króna en afkoma í nóvember og desember kunni þó að bæta stöðuna frá því sem nú er.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka