„Íbúum brá í brún þegar þeir sáu húsið rísa og við erum að kanna réttarstöðu okkar. Þetta er mjög óheppilegt og ekki í anda þess sem borgin hefur boðað á öllum viðburðum um grænt plan, sjálfbærni og heilbrigða innivist,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta um 11.000 fm vöruhús sem rís við Álfabakka 2 í Suður-Mjódd.
Hann segir að minnsta kosti átta íbúðir verða fyrir miklum áhrifum af þessari byggingu vegna nálægðar, skerts útsýnis og skuggavarps sem myndist af byggingunni.
„Vöruflutningabílar sem flytja vörur í verslanir eiga ekki aðra leið út á stofnbraut en í gegnum hverfið. Þeir komast af stofnbraut en ekki út á stofnbraut aftur, nema keyra í gegnum hverfið. Væntanlega er fyllt á verslanir á kvöldin og á nóttinni og má gera ráð fyrir þungaumferð á svæðinu á öllum tímum sólarhringsins,“ segir Bjarni.
Eldum rétt og Ferskar kjötvörur, sem eru í eigu Haga, munu flytja starfsemi sína í 5.000 fm af húsnæðinu. Í öðrum hlutum hússins er gert ráð fyrir vöruhúsi og skrifstofum.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.