Þjálfun nema í flugturni á Keflavíkurflugvelli í febrúar hafði líklega áhrif á árekstrarhættu sem skapaðist þegar farþegaþota Icelandair og Play voru báðar að koma til lendingar.
Þetta kemur fram í lokaskýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna atviksins sem er sagt hafa verið alvarlegt.
Í aðdraganda atviksins þann 20. febrúar var áhöfn Airbus 320-vélar Play við lendingaræfingar í sjónflugi. Flugbraut 19 var því í notkun.
Á sama tíma var Boeing 737-8 vél Icelandair í blindu aðflugi.
Í flugturninum á Keflavíkurflugvelli var flugumferðarstjóri að þjálfa nema sem sinnti bæði turn- og grundbylgjunni.
Neminn var um það bil hálfnaður í verklegri þjálfun sinni en flugumferðarstjórinn var í fyrsta skipti með nema í flugumferðarstjórn.
Flugturninn gaf Play-vélinni fyrirmæli um að hún væri fyrst til lendingar á flugbraut 19. Síðar upplýsti hann stjórnendur vélarinnar um flugumferð við níu sjómílu lokastefnu. Þá var Icelandair-vélin þó komin mjög nálægt flugbrautinni.
Næst áttu flugumferðarstjórinn og neminn samtal um hvað skyldi gera næst, og er flugumferðarstjórinn sagður hafa sagt nemanum að ratsjármynd liti illa út en að hún breyttist með framvindu flugvélanna.
Samkvæmt skýrslunni sögðu flugmenn Icelandair-vélarinnar að þegar þeir skiptu yfir á turnbylgju hefðu þeir heyrt að einhver væri að beygja inn á undan þeim, en þeir vissu ekki hvernig flugvél. Töldu þeir líklegast að þar væri lítil kennsluvél í snertilendingum.
Þá segir í skýrslunni að áhöfn Icelandair-vélarinnar hefði þótt skrítið að hún væri númer tvö, þar sem hún var á lokastefnu og komin mjög nálægt flugvellinum.
Icelandair-vélin kom þá niður úr skýjum en um leið tóku flugmenn vélarinnar eftir Play-vélinni á þverlegg stefnda á sama stað og sömu hæð og þeir á lokastefnunni.
Þá kallaði áhöfn Icelandair-vélarinnar: „Ok. Við sjáum umferðina. Vélin er að koma mjög nálægt.“
Í skýrslunni er tekið fram að kveðið sé á um í verklagshandbók flugumferðarstjóra að lýsa skuli nálægum loftförum svo hægt sé að bera kennsl á þau auðveldlega.
Þarna voru rúmir fjórir kílómetrar á milli vélanna. Play-vélin var þá í 1.200 fetum á hægri þverlegg fyrir flugbrautina en Icelandair-vélin í um 1.900 fetum í lækkun á lokastefnu sinni inn að flugbrautinni.
Áhöfn Play-vélarinnar brást við með því að breyta stefnu sinni og var í kjölfarið sagt að koma inn til lendingar á eftir Icelandair-vélinni.
Þegar flugvélarnar voru sem næst hvor annarri að lengd voru tæpir þrír kílómetrar á milli þeirra.