Jónína Benediktsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík suður í kosningum til Alþingis.
Jónína fæddist 26. mars 1957 og útskrifaðist sem íþróttafræðingur frá Mc Gill-háskólanum í Montreal árið 1981. Hún hefur einnig lokið tvegggja ára námi í hagfræði við Háskólann á Bifröst þar sem hún var með ágætiseinkunnir, að því er segir í tilkynningu.
„Mín helstu kosningamál eru skuldamál heimilanna og smærri fyrirtækja og mannúaðarmál. Ég hef margar hugmyndir um peningastefnu þjóðarinnar og lausn á þeim hnúti sem við þurfum að höggva á er varða gömlu bankana og þá nýju reyndar einnig. Ég lít nýsköpun jákvæðum augum og hef verið frumkvöðull í áratugi.
Ég legg af heilum hug í þessa baráttu og hef nægan tíma til þess að fara á fundi og heimsækja fólk og fyrirtæki.
Ég lít svo á að kjósendur sem velja Jónínu Ben séu ekki endilega hinir hefðbundnu framsóknarmenn og -konur en einnig fólk sem kann að meta ákveðni og innsæi mitt fyrir hrun og það hvernig ég átti auðvelt með að skilgreina samfélagið. Mér sýnist stefna í sama farveg og fyrir hrun og við verðum að hætta að taka þessi alvarlegu mál vettlingatökum og láta staðfestu forða okkur frá því að fara í sama farveg og fyrr.
Ég legg því í þessa vegferð full áhuga og vil vinna með öllu duglegu fólki. Ég bý yfir mikilli reynslu og hef á starfsævinni leitt saman ólíka hópa til samstarfs.
Ég vil því bjóða mig fram í fyrsta sæti í Reykjavík suður. Þar munu hæfileikar mínir njóta sín. Ég mun vinna í vinsemd með flokksmönnum hvaðanæva af landinu. Ég skora á óákveðna kjósendur að standa við bakið á mér í þessari viðleitni til að koma hér á gegnsæi í þeim málum sem þjóðin á rétt á því að fá að sjá,“ segir í tilkynningu frá Jónínu.