Háskólamenntaðar konur óákveðnar

Sveitarstjórnarkosningar fara fram 26. maí. Óákveðnir í Reykjavík eru enn …
Sveitarstjórnarkosningar fara fram 26. maí. Óákveðnir í Reykjavík eru enn þriðji stærsti kjósendahópurinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óákveðnir eru þriðji stærsti hópur kjósenda í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí og var hlutfall þeirra 17,2% í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem birt var fyrir páska í Morgunblaðinu og á mbl.is. Stærstur hluti þeirra eru konur og þá eru háskólamenntaðir mun óákveðnari en aðrir sem hafa minni menntun.

Kosningar eins og Brexit og forsetakosningar Bandaríkjanna sýndu að vægi óákveðinna var oft á tíðum vanmetið og voru niðurstöður skoðanakannana því á skjön við úrslit kosninga. Það er því forvitnilegt að skoða aðeins nánar þennan kjósendahóp og hverjir eru á bak við hann.


 

Það vekur strax athygli þegar rýnt er nánar í þennan hóp að hann virðist mjög ákveðinn í að kjósa. Um 92,7% þeirra sem segjast óákveðnir telja líklegt að þeir muni nýta sér atkvæðisrétt sinn laugardaginn 26. maí. Ef allir þeir standa við að kjósa er því um að ræða rétt tæplega 16% af heildaratkvæðavægi.

Þá er talsverður munur á kynjunum þegar kemur að óákveðnum. Um 70% þeirra eru konur og 30% karlar. Þá er stærsti hluti þeirra óákveðnu háskólamenntaður, eða 57,2%. 33,4% af óákveðnum eru með framhaldsmenntun sem hæsta menntastig og 6,4% með grunnskólapróf sem hæsta menntastig.

Þegar aldur er skoðaður sem breyta sést að ungir kjósendur eru ólíklegastir til að vera óákveðnir á meðan nokkuð jöfn dreifing er meðal aldursflokkanna 30-44 ára, 45-59 ára og 60 ára og eldri.

Hægt er að velja mismunandi breytur í grafinu hér að neðan til að skoða hvaða kjósendahópur er líklegastur til að kjósa viðkomandi flokk eða vera óákveðinn.


 

Það eru því háskólamenntaðar konur yfir þrítugu sem virðast vera stór hluti óákveðna mengisins fyrir komandi kosningar.

Miðað við svör úr sömu könnun Félagsvísindastofnunar eru það velferðar- og jafnréttismál sem konur almennt telja að ráði mestu um það hvaða flokk þær kjósa. Þar á eftir koma skólamál, því næst samgöngumál og svo húsnæðismál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert