Bæjarstjórinn kannast ekki við óánægju á Nesinu

Húsið í Ráðagerði var byggt á árunum milli 1880 og …
Húsið í Ráðagerði var byggt á árunum milli 1880 og 1885.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, kveðst ekki kannast við þá óánægju á meðal sjálfstæðisfólks á Nesinu sem Skafti Harðarson lýsti hér í Morgunblaðinu í gær.

Skafti er í forsvari hóps fólks sem m.a. hefur lengi fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum eða tekið þátt í störfum hans innan bæjarfélagsins sem undirbýr hugsanlega sérframboð í sveitarstjórnarkosningunum hinn 26. maí nk.

„Ég kannast ekki við þessa óánægju, en það er auðvitað öllum frjálst að gefa kost á sér. Það eru auðvitað íbúar bæjarfélagsins sem kjósa sér fulltrúa til þess að stýra Seltjarnarnesbæ,“ segir Ásgerður í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

„Við erum ósátt við fjár­mála­stjórn bæj­ar­ins og eins að alla póli­tíska for­ystu bók­staf­lega vant­ar,“ seg­ir Skafti Harðar­son sem er í for­svari fyr­ir hóp­inn sem að þessu stend­ur. Hann vænt­ir þess að fram­vind­an skýrist nú um miðja vik­una og þá hvort af fram­boði verður.

Um þess­ar mund­ir standa yfir fram­kvæmd­ir við bygg­ingu hjúkr­un­ar­heim­il­is við Byggg­arða á Seltjarn­ar­nesi og greiðir bær­inn um 15% af bygg­inga­kostnaði, sem er áætlaður 1.400 millj­ón­ir króna. Þar tel­ur Skafti bæ­inn kosta of miklu til og að rekst­ur­inn, sem er á for­ræði rík­is­ins, verði áhættu­sam­ur fyr­ir Seltjarn­ar­nes­bæ enda dugi dag­gjöld tæp­ast fyr­ir rekstri stofn­un­ar sem þess­ar­ar. Kaup á hús­inu Ráðagerði fyr­ir 100 millj­ón­ir króna nú ný­lega, hugsað fyr­ir ým­iss kon­ar menn­ing­ar­starf­semi, hafi verið frá­leit ráðstöf­un. Þar vís­ar Skafti til stöðu bæj­ar­sjóðs sem var rek­inn með 99 millj­óna króna tapi á síðasta ári.

Aðspurð hvað hún segði um gagnrýni Skafta, m.a. að kaup á húsinu Ráðagerði hefðu verið „fráleit ráðstöfun“ á sama tíma og hallinn á bæjarsjóði á síðasta ári var 99 milljónir króna, sagði Ásgerður: „Bæjarsjóður þurfti að borga eingreiðslu til lífeyrissjóðsins Brúar (Brú – lífeyrissjóður sveitarfélaga. Innskot blm.) út af SALEK-samkomulaginu, eins og öll önnur bæjarfélög. Eingreiðslan var upp á 176 milljónir króna, sem við þurftum að borga í lok síðasta árs. Þessi greiðsla gerði það að verkum að það varð tap á rekstri bæjarfélagsins á liðnu ári. Við vissum af því allt árið í fyrra að það kæmi til þessarar greiðslu í lok árs.“

Ásgerður segir um gagnrýni Skafta á 15% greiðsluþátttöku Seltjarnarness í byggingu hjúkrunarheimilis á Nesinu að bygging slíks heimilis hafi lengi verið áformuð. „Það eru allir mjög sáttir við það að hér sé að rísa 40 íbúa hjúkrunarheimili, en það verður tekið í notkun um næstu áramót,“ sagði Ásgerður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert