Fyrstu tölur um ellefu

Talningarfólk stendur í ströngu við að flokka kjörbæklingana.
Talningarfólk stendur í ströngu við að flokka kjörbæklingana. mbl.is/Árni Sæberg

Von er á fyrstu tölum úr Reykjavík upp úr ellefu. Þetta segir Eva B. Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar. Kjörstöðum var lokað nú klukkan tíu og og er talning atkvæða komin á flug í Laugardalshöll, þar sem yfirkjörstjórn hefur aðsetur.

Að sögn Evu hafa kosningarnar farið vel fram. Einhverjar kvartanir höfðu borist í dag um áróður á kjörstað. Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Borgarinnar okkar, báru báðar barmmerki flokka sinna þegar þær greiddu atkvæði. Aðspurð segir Eva kjörstjórnina hafa brugðist við með ábendingum og þeim hafi í öllum tilvikum verið vel tekið.

Kjörsókn hefur verið ívið betri í borginni nú en fyrir fjórum árum en klukkan níu höfðu 55,6% af kjörskrá greitt atkvæði á kjörstað, en þar eru ótalin utankjörfundaratkvæði. Á sama tíma fyrir fjórum árum var hlutfallið 51,5%. „Ég spái 58,5 prósentum,“ segir Eva. Enn hafa ekki borist lokatölur um kjörsókn, en hægt er að fylgjast með þróuninni á heimasíðu Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert