Hafa fundið fyrir miklum meðbyr

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Dagurinn leggst mjög vel í mig. Það er búið að vera mikið stuð í skoðanakönnunum og nú er stóra stundin runnin upp,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is eftir að hún greiddi atkvæði í Árbæjarskóla.

Sam­kvæmt nýj­ustu könn­un Gallup sem var unn­in fyr­ir frétta­stofu Rík­is­út­varps­ins var fylgi Viðreisnar 8,7%. Aðspurð sagðist Þórdís telja að Viðreisn ætti meira inni. 

„Já, ég held það en við rennum blint í sjóinn vegna þess að við höfum aldrei boðið fram í Reykjavík áður. Þetta eru sérstakar kosningar að því leyti að það eru mjög margir flokkar sem bjóða fram en við teljum okkur eiga mikið inni miðað við þann meðbyr sem við höfum fundið fyrir.“

Samkvæmt könnun Gallup er meirihluti Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata í Reykjavík fallinn. Þórdís segir að það setji Viðreisn í oddastöðu sem allir flokkar vilji vera í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert