Meirihluti fyrir þéttari byggð og borgarlínu

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir óformlegar þreifingar hafa verið í gangi á milli flokka í dag og að það kæmi honum á óvart ef þær hefðu ekki verið á alla kanta. Hann segist telja að meirihluti sé í borgarstjórn fyrir þeim málum sem fráfarandi meirihluti í borgarstjórn hafi sett á oddinn síðustu ár.

„Stóru átakalínurnar í þessum kosningum voru um þróun borgarinnar og samgöngu- og skipulagsmálin þó margt annað hafi borið á góma. Ég sé ekki betur en að það sé góður meirihluti í borgarstjórn fyrir áherslu á þéttingu byggðar, borgarlínu og önnur mikilvæg verkefni,” segir Dagur í samtali við mbl.is.

Hann á von á því að á næstu dögum tali flokkarnir saman og að línur skýrist í fyrri hluta vikunnar.  

En á einhver tilkall til þess að hefja viðræðurnar?

„Það eru engar skyldur í þessum efnum aðrar en að sveitarstjórnarfólk myndi starfhæfan meirihluta. Þegar þingið er annars vegar hefur forsetinn ákveðið hlutverk í þessu, en á sveitarstjórnarsviðinu hefur enginn slíkt hlutverk, við berum ábyrgð á þessu sjálf. Meirihlutamyndunin gengur út á að ná meirihluta um mikilvægustu verkefnin sem skipta máli fyrir Reykjavík á komandi árum,” segir borgarstjóri.

Rætt hefur verið um að mögulega eigi Viðreisn möguleika á því að fara fram á að leiða meirihlutasamstarf í borginni í ljósi þess að flokkurinn er í oddastöðu og gæti stutt meirihluta bæði til hægri og vinstri.

Dagur segir að hann vonist til þess að það verði hlutskipti Samfylkingarinnar að koma að myndun meirihluta og að hann telji að þeir flokkar sem hyggist selja sig dýrt muni frekar gera það á grundvelli málefna en borgarstjóraembættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert