Kosningarnar í brennidepli erlendra fjölmiðla

Erlendir fjölmiðlar ræddu við Katrínu Jakobsdóttur, formann VG og forsætisráðherra, …
Erlendir fjölmiðlar ræddu við Katrínu Jakobsdóttur, formann VG og forsætisráðherra, er hún mætti á kjörstað í morgun. AFP

Erlendar fréttastofur fjalla nú um alþingiskosningarnar á Íslandi í dag. Helst er fjallað um metfjölda flokka sem eiga kost á að komast á þing, hvort ríkisstjórnin haldi og mismunandi áherslur í loftslagsmálum.

Í umfjöllun CNN segir að niðurstöður kosninganna geti orðið skrautlegar nú þegar líkur eru á því að níu flokkar komist á þing. Það gæti valdið því að erfitt verði að komist að sameiginlegri niðurstöðu í ákvörðunum sem snúa að loftslagsbreytingum og heilbrigðiskerfinu. 

Þá segir í umfjölluninni að íbúar Íslands hafi síðustu fjögur ár búið við stöðugleika eftir mörg ár af pólitískum hneykslum, vantrausti í garð stjórnmálamanna og eftir hrunið 2008.

Gæti markað lok ríkisstjórnarinnar

CNN bendir á að þó svo að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra njóti enn vinsælda bendi skoðanakannanir til þess að Vinstri-grænir missi fylgi og marki það þá lok ríkisstjórnarinnar.

„Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn, stærsta flokk Íslands, fer einnig minnkandi en niðurstaðan í kosningunum getur samt veitt Bjarna Benediktssyni fyrrverandi forsætisráðherra umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar,“ segir á vef CNN.

AFP

Þá segir einnig að vegna mögulegs nýs pólitísks landslag geti reynst erfitt að mynda nýja ríkisstjórn og að Katrín kunni að leita samstarfs við aðra vinstriflokka sem skoðanakannanir benda til að muni njóta stuðnings. 

Loftslagsmál í forgrunni

AP-fréttastofan segir loftslagsmál í forgrunni í alþingiskosningunum í kjölfar sumars sem fréttastofan kallar óvenju heitt. 

AP bendir á að stjórnmálamenn séu ekki sammála um hvort Ísland skuli grípa til brýnna aðgerða til að bregðast við loftslagsbreytingum eða „hvort nýta skuli tækifæri til hagvaxtar  þar sem bráðnun jökla og hlýrra veður býður upp á mikilvægar atvinnugreinar fyrir Ísland“.

Þá bendir AP á að kannanir sýni að mikill stuðningur sé við vinstrisinnaða flokka sem lofa því að draga úr losun kolefnis í meira mæli en Ísland hefur skuldbundið sig til samkvæmt Parísarsamningnum.

Myndir af frambjóðendum hafa sést á strætóskiltum í aðdraganda kosninganna.
Myndir af frambjóðendum hafa sést á strætóskiltum í aðdraganda kosninganna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert