„Hvorki upphaf né endir flokksins“

Gunnar Smári Egilsson, oddviti Sósíalistaflokks Íslands.
Gunnar Smári Egilsson, oddviti Sósíalistaflokks Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokks Íslands, er ekki ánægður með úrslit alþingiskosninganna í ár. Framgangur flokksins í kosningunum marki þó hvorki upphaf né endi hans, segir hann í samtali við mbl.is.

Skoðanakannanir bentu til þess að Sósíalistar myndu ná manni inn á þing. Það varð þó ekki raunin en samkvæmt lokaniðurstöðum kosninganna hlaut flokkurinn 4,1% atkvæða. Sósíalistar komust því ansi nálægt því að fá þingsæti en ekki nógu nálægt.

„Ég hef það ágætt en þetta eru náttúrulega ekki góð úrslit. Við erum bara hugsi yfir kosningabaráttunni sjálfri. Við höfðum sterkari stöðu framan af, þegar kosningabaráttan snérist meira um stefnur og framtíð samfélagsins,“ segir Gunnar.

„Það er hvergi 5% þröskuldur nema á Íslandi“

Inntur eftir mögulegri skýringu á dræmu fylgi flokksins segir Gunnar hana vera margþætta. Vægi atkvæða í kosningunum hafi til að mynda ekki verið flokknum í hag.

Í öllum nágrannalöndum okkar hefðum við fengið þingmenn út á þetta fylgi. Það er hvergi 5% þröskuldur nema á Íslandi ef við miðum við okkar nágrenni. Til að mynda var kosið í Noregi fyrr í þessum mánuði og þar er þröskuldurinn 4% sem þykir meira að segja ansi hátt þar. Þannig í raun vorum við með atkvæðamagn til þess að fá tvo menn inn á þing og þeir þingmenn eru nú hjá Framsókn. Þessi þröskuldur gerir nýjum flokkum mjög erfitt fyrir,“ segir hann. 

Þá hafi skortur á auglýsingatekjum einnig spilað þátt í því hvernig fór, að sögn Gunnars.

Þegar það voru tíu dagar til kosninga upplifðum við okkur verða undir gagnvart fjárhagslegu afli hinna flokkana þegar kom að auglýsingum. Auðvitað hefðum við getað gert eitthvað öðruvísi en þetta er munurinn á því að reka kosningabaráttu innan úr grasrótarsamtökum, þar sem er ekkert fjármagn og allt starf unnið í sjálfboðavinnu, á móti flokkum sem eru vellauðug félög út af ríkisstyrkjum. Það fór ekki framhjá neinum sem fylgdist með kosningabaráttunni að auglýsingarnar tóku eiginlega yfir baráttuna í lokin“ segir Gunnar.

Gunnar Smári á kjörstað í gær.
Gunnar Smári á kjörstað í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ætla ekki að láta deigan síga

Spurður segir Gunnar of snemmt að segja til um það hvað flokkurinn hefði getað gert öðruvísi í kosningunum.

„Við erum ennþá bara að meðtaka úrslitin og meta hvernig þetta fór. Það er ekki gefið að Sósíalistaflokkur falli vel að kosningabaráttu eins og hún er háð í samfélaginu, barátta sem er löguð að því sem mætti kalla elítustjórnmálum. Við verðum bara að hugsa hvernig það verður gert.

Eins og við höfum alltaf sagt þá var framboð flokksins til Alþingis bara hluti af baráttu hans. Við trúum því að mestur árangur fáist með baráttu innan verkalýðshreyfingarinnar og í almannasamtökum. Hugmyndin um að bjóða okkur fram til þings var að það yrði armur slíkrar hreyfingar inni á þingi en ekki aðalatriðið.“ 

Inga Sæland og Gunnar Smári Egilsson.
Inga Sæland og Gunnar Smári Egilsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Baráttu Sósíalistaflokksins er því langt frá því að vera lokið, þótt framgangur flokksins í kosningunum hafi ekki gengið eins vel til og vonir hafi staðið til um, að sögn Gunnars.

„Sósíalistaflokkurinn hefur verið til í fjögur ár og hann mun halda áfram að vera til. Það eru sveitarstjórnarkosningar framundan næsta vor þannig ég býst við því að við förum fljótlega að velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að koma inn í þá baráttu.

Við höfum alltaf vitað að þetta yrði löng barátta. Alþingiskosningar voru ekki meginmarkmið flokksins og úrslitin hvorki upphaf og endir flokksins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert