„Ekki að fara að elta hann út í þetta fen“

Sigmundur Davíð fyrir utan fund stjórnarinnar í dag.
Sigmundur Davíð fyrir utan fund stjórnarinnar í dag. mbl.is/Óttar

„Auðvitað eru þetta vonbrigði. En fyrst og fremst finnst mér þetta rangt gagnvart því fólki sem er búið að verja mörgum vikum, jafnvel mánuðum, í að vinna fyrir flokkinn í Suðurkjördæmi. Og við það, að berjast fyrir því að koma Birgi inn á þing, sem hafðist með átta atkvæðum.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, við blaðamann mbl.is sem náði af honum tali fyrir utan stjórnarfund flokksins í kjölfar tíðinda af brotthvarfi þingmannsins Birgis Þórarinssonar úr flokknum.

Sigmundur kveðst fyrst og fremst hafa áhyggjur af því fólki sem að í sjálfboðavinnu hafi lagt mjög mikið á sig til að koma inn þingmanni fyrir flokkinn.

„En lendir svo í þessu, áður en það er einu sinni búið að setja þing.“

„Neitaði að trúa því“

Kom þessi ákvörðun hans á óvart?

„Ja, já. Sumir myndu segja að hún hefði ekki átt að koma manni svo á óvart. Það var búið að segja við mig – og fleiri en einn – að Birgir myndi ganga í Sjálfstæðisflokkinn.

Ég neitaði að trúa því, því hann hét því við fólkið í kjördæminu að hann yrði með okkur, og lagði auðvitað mikið á sig til að vera valinn oddviti í kjördæminu, með loforðum um að standa með flokknum.

En svo kemur bara á daginn, að þeir sem vöruðu við þessu – þeir höfðu rétt fyrir sér. Þannig að já, þetta kemur mér á óvart en kannski ekki öllum.“

Menn myndu standa við fyrirheit sín

Hvenær varaði fólk við þessu?

„Það var auðvitað kannski ekki síst þegar verið var að raða á lista. Og ég hafði einsett mér að ég myndi ekki skipta mér af uppröðun á lista. Bara gefið út yfirlýsingu um að, ekki einu sinni í mínu eigin kjördæmi, myndi ég skipta mér af uppröðuninni. Kjördæmafélögin myndu sjá um það og ég myndi treysta þeim til þess að raða upp á lista.

En auðvitað í tengslum við slíkt, uppstillingu eða prófkjör, þá kemur alltaf upp einhver umræða. Ég kannski trúði því, eins og maður hefur stundum gert áður án þess að það hafi reynst rétt, að menn myndu standa við fyrirheit sín. Sem gekk ekki eftir í þessu tilviki. Þannig að þeir sem héldu þessu fram við mig, þeir mega eiga það að þeir höfðu rétt fyrir sér. Sem eru vonbrigði.“

Athugasemd ítrekuð

Hann sagði í aðsendri grein sinni í Morgunblaðinu að einhverjir lykilmenn flokksins hefðu reynt að sjá til þess að hann fengi ekki oddvitasæti. Passar það?

„Nei. Það virðist vísað í tölvupóst sem var sendur út af þessum aðila, fyrrverandi stjórnarmanni, þar sem sagt var að þótt uppstilling í Suðurkjördæmi hefði ekki verið í samræmi við lög flokksins – og það var ágreiningur um það – þá engu að síður ætlaði viðkomandi að sætta sig við niðurstöðuna.

Svoleiðis að þetta var ekki póstur um að reyna að koma í veg fyrir að Birgir yrði þarna. Þetta var þvert á móti póstur um það að jú, ítreka athugasemd um að valið hefði ekki farið fram á réttan hátt, en að viðkomandi ætlaði engu að síður að sætta sig við þetta.“

Aðspurður segist Sigmundur ekki vilja nafngreina þennan fyrrverandi stjórnarmann flokksins.

Eftiráskýring sem heldur ekki vatni

Spurður út í þau ummæli Birgis, um að samflokksfólk hans hafi ekki treyst honum eftir að hann gagnrýndi orðræðu þess í Klaustursmálinu svokallaða, og hvort það sé rétt staðhæft, segir Sigmundur:

„Ég held að það sjái það nú hver maður, að það eru liðin nú um þrjú ár síðan þetta var, og síðan þá hefur margt gerst og Birgi verið treyst fyrir hinum ýmsu hlutverkum. Þannig að þetta er held ég þriggja ára gömul eftiráskýring sem heldur ekki alveg vatni, finnst mér.“

Fín samstaða á þingflokksfundi

Stjórn flokksins kom eins og áður sagði saman til fundar í dag. Spurður hvað rætt hafi verið á fundinum svarar Sigmundur:

„Við vorum að fjalla um stöðuna hjá flokknum núna og praktísk atriði fram undan. Við erum búin að halda fyrsta þingflokksfundinn, sem var ágætur. Og bara fín samstaða þar,“ segir hann léttur í bragði, en eftir tíðindi morgunsins telur þingflokkurinn tvo þingmenn; Sigmund sjálfan og svo Bergþór Ólason.

Nú eruð þið tveir eftir. Er einhver möguleiki á því að þið sameinist til dæmis Sjálfstæðisflokknum eða Framsókn?

„Nei, ég tók eftir því að þessi þingmaður sem að fór vildi, þrátt fyrir að hafa talið sig þurft að fara – vildi samt fá okkur með. Sem var áhugavert. En við erum ekki að fara að elta hann út í þetta fen.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert