Sjálfstæðisflokkurinn fer áberandi langt niður

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, sem mælast afar vel um …
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, sem mælast afar vel um þessar mundir. mbl.is/Óttar

„Áframhaldandi fylgistap Sjálfstæðisflokksins í borginni hlýtur að vera stærsta fréttin í þessu og að Píratar eru enn á uppleið,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, um niðurstöður í könnun fyrir komandi sveitastjórnarkosningar sem kynnt var í morgun. 

Fylgiskönnunin var framkvæmd af Prósent fyrir Fréttablaðið en 50,4% þeirra sem haft var samband við svöruðu könnuninni. Úrtakið var 1.750 einstaklingar. Samkvæmt könnuninni er Samfylkingin með 26,7% fylgi og Píratar koma næst á eftir með 17,9%. Þá kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 16,2% og Framsóknarflokkurinn með 12,4%. 

Grétar segir breytingar á fylgi Sjálfstæðisflokksins vera það miklar miðað við þetta að heppilegast sé að sjá aðra könnun áður en miklar ályktanir séu dregnar. 

„Það blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn fer áberandi langt niður. Þegar svona breytingar verða þá vill maður helst sjá aðra könnun sem sýni svipað áður en maður fer að draga of miklar ályktanir. Þegar maður skoðar síðustu kannanir þá hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins verið á niðurleið og fylgi Pírata á uppleið. Niðurstöður þessarar könnunar eru því áframhald á því og svipað má segja um Samfylkinguna sem hefur verið að bæta við sig.

En þegar ég fór að rýna í þessar niðurstöður, og aldursgreininguna, þá kemur í ljós að Píratar eru mjög sterkir hjá yngstu kjósendunum. Sjálfstæðisflokkurinn er það alls ekki í þessari könnun. Við höfum séð það áður að unga fólkið skilar sér illa á kjörstað þótt það kunni að gefa upp hvaða framboð það styður í könnunum. Þar af leiðandi er sá möguleiki fyrir hendi að Píratar séu að einhverju leyti ofmetnir og Sjálfstæðisflokkurinn vanmetinn. En hversu stórar sveiflur það gætu verið er erfiðara að segja til um. Ef maður ætti að búa til einhvers konar spá út frá þessari könnun þá kæmi mér ekki á óvart ef Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn myndu hafa sætaskipti í öðru og þriðja sæti.“

Grétar Þór Eyþórsson.
Grétar Þór Eyþórsson. Aðsend

Framsóknarflokkurinn er fjórði stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni og myndi fá þrjá menn, aðeins einum borgarfulltrúa minna en Sjálfstæðisflokkurinn. Framsóknarflokkurinn fékk ekki mikið fylgi í höfuðborginni á árum árum miðað við á landsbyggðinni en Grétar bendir á að fylgi flokksins hafi verið gott í borginni á undanförnum misserum. 

„Framsóknarflokkurinn er bara mjög sterkur og með mjög stöðugt fylgi. Það er nánast alltaf á milli 12 og 13% könnun eftir könnun sem er hreint ótrúlega stöðugt fylgi. Frambjóðendum flokksins með Einar Þorsteinsson í efsta sæti tekst að halda þeirri fylgisaukningu sem var byrjuð að sýna sig fyrir töluverðu síðan. Við skulum heldur ekki gleyma því að Framsóknarflokkurinn fékk prýðilegt fylgi í þingkosningunum síðasta haust. Síðan þá hefur þeim tekist að halda því.“

Meirihlutinn bætir við sig borgarfulltrúa

Nokkuð langt er í aðra flokka samkvæmt könnuninni. Sósíalistaflokkurinn er fyrir ofan bæði Viðreisn og Vinstri hreyfinguna - grænt framboð. Sósíalistar eru með 7,7%, Viðreisn 7% og VG 5,4%. 

Flokkur fólksins er með 4,2%, Miðflokkurinn 1,7%, Ábyrg framtíð 0,6% og Reykjavík - besta borgin 0,4%. 

Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og VG mynda meirihluta í borgarstjórn á því kjörtímabili sem senn er á enda. Meirihlutinn heldur því örugglega velli samkvæmt þessari könnun. 

„Allar síðustu kannanir sýna meirihlutann halda sínum tólf mönnum og allra síðustu kannanir sýna að meirihlutinn fái þrettán menn. Eins og þetta lítur út núna virðast flokkarnir sem mynda meirihlutann vera að sækja í sig veðrið,“ segir Grétar Þór Eyþórsson en mbl.is leitaði álits hjá honum í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert